Björnsbakarí á Fálkagötu 18 hefur verið skellt í lás eftir áratuga starfsemi. Um er að ræða þriðju verslunina á vegum Björnsbakarís sem hefur verið lokað á síðustu tveimur árum. Steinþór Jónsson, framkvæmdastjóri og eigandi Björnsbakarís, segir ástæður vera samdrátt og breyttar neysluvenjur landans. „Brauðið hefur ekki gert neitt af sér,“ segir Steinþór í samtali við Fréttablaðið og bætir við að framboð verslananna sé ekki vandinn.
„Fólk er að taka upp nýjar lífstílsvenjur og svo hefur það tíðkast að einkaþjálfarar ráðleggi fólki að hætta að borða brauð,“ Hann bendir þó á að í takt við ýmsa kúra hafi þjóðin þyngst og að samkvæmt nýjum tölum væri offita að aukast á Íslandi. „Vandamálið er ekki brauðið enda borðum við minnsta brauðið í Evrópu hérna á Íslandi.“
Sala helmingast
Steinþór segir það vera alveg klárt mál að samdráttur sé í öllum bakaríum landsins. „Þetta er bara hluti af þeim raunveruleika sem við þurfum að takast á við ég er að sjálfsögðu ekkert ánægður með það.“ Þá hafi bakaríinu á Fálkastíg ekki verið lokað með glöðu geði heldur brýnni nauðsyn. „Salan var búin að helmingast frá því sem best var og ljóst að það þurfti að grípa til aðgerða.“
Fastakúnnar bakarísins munu eflaust syrgja missinn en enn eru tvær verslanir Björnsbakarís starfræktar, önnur á Hringbraut og hin á Seltjarnarnesi. Viðskiptavinir og fyrirtæki geta því enn nálgast brauð og bakkelsi án mikillar fyrirhafnar.

Litlir framleiðendur í klípu
„Það er bara of dýrt að halda úti og mörgum búðum,“ segir Steindór og nefnir að launakostnaður, húsaleiga, skattar og aðrar skyldur leggist allt á eitt til að gera litlum framleiðendum erfitt fyrir. „Svo erum við auðvitað í samkeppni bæði við önnur bakarí, stærri framleiðendur og innflutta vöru sem þýðir það að við getum ekki hækkað vöruna okkar sem að kannski þyrfti.“
Þá bendir Steindór á að bakarí geti ekki keppst við verð á innfluttri vöru. „Sá sem fer í Costco og kaupir sex kexpakka á þúsund krónur hann þarf ekki að fara í bakarí.“ Það sem bakarí hafi fram yfir magnkaup hjá stærri fyrirtækjum sé að fólk geti keypt þann skammt sem þeim hentar.
Rómantík í litlu hlutunum
Það má segja að fólki sé ekki gert að kaupa meira en það þarf þegar það mætir í bakarí, það kaupir bara það sem þeim vantar hvort sem það er eitt brauð eða þrjú rúnstykki.“ Þannig geti bakarí verið bæði ferskari og umhverfisvænni kostur fyrir neytendur. „Það er okkar þjónusta.“
Steinþór segir það vera undir viðskiptavinum komið hvort bakaríin sem eftir standa muni geta staðið undir sér í framtíðinni. Hann vonast þó til að einhverjir sjái enn rómantíkina í því að rölta í bakaríið á næsta horni og versla inn fyrir sunnudagskaffið.
