Björns­bakarí á Fálka­götu 18 hefur verið skellt í lás eftir ára­tuga starf­semi. Um er að ræða þriðju verslunina á vegum Björns­bakarís sem hefur verið lokað á síðustu tveimur árum. Stein­þór Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri og eig­andi Björns­bakarís, segir á­stæður vera sam­drátt og breyttar neyslu­venjur landans. „Brauðið hefur ekki gert neitt af sér,“ segir Stein­þór í sam­tali við Frétta­blaðið og bætir við að fram­boð verslananna sé ekki vandinn.

„Fólk er að taka upp nýjar líf­stíls­venjur og svo hefur það tíðkast að einka­þjálfarar ráð­leggi fólki að hætta að borða brauð,“ Hann bendir þó á að í takt við ýmsa kúra hafi þjóðin þyngst og að sam­kvæmt nýjum tölum væri of­fita að aukast á Ís­landi. „Vanda­málið er ekki brauðið enda borðum við minnsta brauðið í Evrópu hérna á Ís­landi.“

Sala helmingast

Stein­þór segir það vera alveg klárt mál að sam­dráttur sé í öllum bakaríum landsins. „Þetta er bara hluti af þeim raun­veru­leika sem við þurfum að takast á við ég er að sjálf­sögðu ekkert á­nægður með það.“ Þá hafi bakaríinu á Fálka­stíg ekki verið lokað með glöðu geði heldur brýnni nauð­syn. „Salan var búin að helmingast frá því sem best var og ljóst að það þurfti að grípa til að­gerða.“

Fastakúnnar bakarísins munu ef­laust syrgja missinn en enn eru tvær verslanir Björns­bakarís starf­ræktar, önnur á Hring­braut og hin á Sel­tjarnar­nesi. Við­skipta­vinir og fyrir­tæki geta því enn nálgast brauð og bakk­elsi án mikillar fyrir­hafnar.

Ýmis brauð og bakkelsi á borð við kleinur og snúða má finna í verslun Björnsbakarís.

Litlir fram­leið­endur í klípu

„Það er bara of dýrt að halda úti og mörgum búðum,“ segir Stein­dór og nefnir að launa­kostnaður, húsa­leiga, skattar og aðrar skyldur leggist allt á eitt til að gera litlum fram­leið­endum erfitt fyrir. „Svo erum við auð­vitað í sam­keppni bæði við önnur bakarí, stærri fram­leið­endur og inn­flutta vöru sem þýðir það að við getum ekki hækkað vöruna okkar sem að kannski þyrfti.“

Þá bendir Stein­dór á að bakarí geti ekki keppst við verð á inn­fluttri vöru. „Sá sem fer í Costco og kaupir sex kex­pakka á þúsund krónur hann þarf ekki að fara í bakarí.“ Það sem bakarí hafi fram yfir magn­kaup hjá stærri fyrir­tækjum sé að fólk geti keypt þann skammt sem þeim hentar.

Rómantík í litlu hlutunum

Það má segja að fólki sé ekki gert að kaupa meira en það þarf þegar það mætir í bakarí, það kaupir bara það sem þeim vantar hvort sem það er eitt brauð eða þrjú rún­stykki.“ Þannig geti bakarí verið bæði ferskari og um­hverfis­vænni kostur fyrir neyt­endur. „Það er okkar þjónusta.“

Stein­þór segir það vera undir við­skipta­vinum komið hvort bakaríin sem eftir standa muni geta staðið undir sér í fram­tíðinni. Hann vonast þó til að ein­hverjir sjái enn rómantíkina í því að rölta í bakaríið á næsta horni og versla inn fyrir sunnu­dags­kaffið.

Björnsbakarí á Hringbraut er önnur af tveimur verslunum sem eftir standa.
Mynd/ja.is