„Það er mjög mikið átak sem þarf í að segja frá bóluefninu, það er mikið af falsfréttum, sérstaklega hjá þeim sem eru minna menntaðir, þeir trúa frekar falssögum,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi um stöðuna á smitum og bólusetningum í Svíþjóð.

Á stærsta sjúkrahúsi landsins sem Björn stjórnar hefur þetta líka verið vandamál meðal ófaglærðs starfsfólks. „Við höfum jafnvel séð þetta þegar við vorum að bólusetja starfsfólkið á spítalanum þá vildu allir láta bólusetja sig nema þeir sem höfðu einföldu störfin og minnsta menntun,“ segir Björn sem er í stuttu stoppi hér á landi..

Sömu bóluefni

Björn segir bólusetningu almennt þó ganga vel í og forgangshópar svipaðir og á Íslandi. Búið sé til dæmis að bólusetja 85 prósent 66 ára og eldri á Stokkhólmssvæðinu þar sem yfir tuttugu prósent Svía búa. Sömu bóluefni eru notuð og hér á landi og sömu hlutfallslegu skammtar berast til landins.

Dregið hefur úr álaginu á Karolinska. „Inni á mínum spítala sem er auðvitað langstærstur þá erum við í dag með 40 manns inniliggjandi. Það er ekkert miðað við það sem var í fyrstu bylgjunni, á tímabili var ég með 700 sjúklinga inniliggjandi,“ segir Björn. Á Stokkhólmssvæðinu eru í kringum 350 manns á spítala vegna Covid-19 og um 85 á gjörgæslu.

Björn segir að búið sé að bólusetja 85 prósent 66 ára og eldri á Stokkhólmssvæðinu þar sem yfir tuttugu prósent Svía búa
Fréttablaðið/EPA

Meira um tilmæli í Svíþjóð

Sænskt stjórnvöld hafa farið aðrar leiðir en Ísland þegar kemur að sóttvarnarreglum, segir Björn og vírusinn hafi komið aðrar leiðir inn í landið en til Íslands svo það hafi verið aðrar forsendur hjá Svíum og löggjöfinni beitt öðruvísi. „Á meðan hér var hægt að loka og hætta við ákveðna hluti, þá byggðist stjórnunin í Svíþjóð meira á tilmælum, en á þessu ári var lögunum reyndar breytt svo að núna er farið að beita öðrum hlutum líka.“

Aðspurður um hvort rætt sé um eða eitthvað hafi verið ákveðið með bólusetningar barna og unglingar í Svíþjóð, segir Björn engar ákvarðanir hafa verið teknar. „En það er auðvitað mikil eftirspurn eftir því.“

Bjartsýni en minna úthald

Um hvort bjartsýni ríkið meðal Svía að vel takist að kveða nú niður þriðju bylgju faraldursins, segir hann svo vera en úthald fólks að minnka. „Það er mjög mikil bjartsýni tengd bólusetningunni en á móti eru mjög margir orðnir þreyttir á þessu eru ekki alveg að fara eftir reglunum,“ segir Björn.