Þórunn Sveinbjarnardóttir í Samfylkingunni segir gaman að heyra Björn Leví Gunnarsson Pírata tala því hann minni á gamla Kvennalista konu.

Björn Leví ræðir um mikilvægi þess að dreifa valdi, huga að grunnstoðum samfélagsins og fá þjóðarsátt um laun heilbrigðisstarfsmanna og kennara.

„Það er búið að segja að vinnumarkaðs- og kjaraviðræðna módelið sé rangt og það er alveg rétt. Til þess að laga það þurfum við að huga að því hvar lágmarkið sé og grunnstoðirnar. Það verður að vera akkeri í kjaraviðræður og þróun á vinnumarkaðs módelinu í framtíðinni,“ segir Björn í kosningaþætti Hringbrautar sem verður sýndur í kvöld.

Í fyrstu kosningavaktinni mæta þau Brynjar Níelsson í Sjálfstæðisflokknum, Þórunn Sveinbjarnardóttir í Samfylkingunni og Björn Leví Gunnarsson í Pírötum til að ræða allt það helsta fyrir Alþingiskosningar.

„Gaman að hlusta á Björn Leví því hann talar eins og gömul Kvennalista kona.“

Anarchy er valddreifing

Aðspurður hvar Píratar sitji á hinu pólitíska litrófi segir Björn að hugmyndafræði Pírata sé að ein tegund af hægri eða vinstri sé ekki svarið við öllum lífsins spurningum.

„Í hvert skipti sem við tökumst á við vandamál viljum við skoða hvaða lausn sé best. Þess vegna viljum við sjá kostnaðarmat, ábótagreiningu og forgangsröðun verkefna sem segir okkur frekar af hverju það er betra að velja eina lausn yfir aðra. Hægri umfram vinstri, frjálslyndi umfram stjórnlyndi þó við viljum almennt henda stjórnlyndi á haugana.“

Er þetta anarchy?

„Ég er þar að valddreifing sé anarchy. Að gefa sér ekki fyrirfram að eitthvað kennivald viti best alltaf heldur að leita til lýðræðisins eftir hugmyndum og meta þær eftir eigin verðugleikum og nota þær bestu.“

„Gaman að hlusta á Björn Leví því hann talar eins og gömul Kvennalista kona,“ skaut þá Þórunn Sveinbjarnardóttir inn í.

Brynjar Níelsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björn Leví Gunnars­son verða í kosningaþætti Hringbrautar í kvöld.
Fréttablaðið/Anton Brink