Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir fjárlagafrumvarp næsta árs ekki fela í sér neinar breytingar frá því að boðaðar voru í fjármálaáætlun sem kynnt var síðasta vor.

„Ég sé ekkert sem líkist kosningum í þessu fjárlagafrumvarpi. Skattalækkunin sem stjórnarsáttmálinn boðar er í rauninni endurútreikningur á því hvernig skattaafsláttur og skattþrep virka til þess að haldast í við raunbreytingar í hagkerfinu, til þess að hann rýrni ekki í verði. Það er trompað upp sem skattalækkun. Það er gjörsamlega fáránlegt,“ segir Björn Leví.

Björn Leví tekur fram að hann sé ekki búinn að lesa allt frumvarpið en hann hafi fengið kynningu á því.

„Það er engin breyting frá fjármálaáætlun í vor. Það eru einhverjar raunleiðréttingar sem tengjast lýðfræðilegum þáttum og áframhaldandi Covid-aðgerðir. Það er engin stefnubreyting, það er ekki neitt sem ætti að koma á óvart,“ segir hann.

Það eina sem sjá má af breytingum eftir kosningarnar sé uppstokkun á ráðuneytum.

„Það er gert til að geta troðið málum sínum í gegn án þess að þurfa að sinna faglegri stjórnsýslu,“ segir Björn Leví.

Hvaða breytingar hefðir þú helst viljað sjá?

„Ég hefði viljað sjá áherslur á húsnæðismarkaðinn og einhverjar alvöru áætlanir í heilbrigðismálum á næstunni. Við vitum það alveg að Landspítalinn hefur verið fjársveltur, þó við vitum ekki alveg af hverju því það fást aldrei svör, þá er vandinn augljós öllum. Það er ekkert gert til að bregðast við undirliggjandi vanda.

Það er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála aukist um 16,3 milljarða króna, auk 2,6 milljarða króna framlags til að auka getu Landspítalans til að bregðast við heimsfaraldrinum.

„Það var ekkert svoleiðis í kynningunni. Ég spurði sérstaklega um frávik frá fjármálaáætluninni frá því í vor, þá var ekki neitt nema lýðfræðilegar breytingar og Covid-úrræði,“ segir Björn Leví.

„Það lítur út fyrir að tölurnar séu að stækka hér og þar en það eru bara eðlilegar breytingar á mannfjölda.“