Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata í kjörbréfanefnd, skrifaði ekki undir greinargerð undirbúningsnefndarinnar sem birt var á vef Aþingis í gær.

Hann segir ákveðna starfsmenn þingsins sem komu að vinnu við greinargerðina hafi einnig verið starfsmenn Landskjörsstjórnar.

Þetta sé ein af meginástæðum þess að hann geti ekki fellt sig við greinargerðina. Samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttarins megi sama fólk ekki vinna að máli á fleiri en einu stjórnsýslustigi.

„Ég er enn að reyna komast í að segja þetta á þann máta sem sprengir ekki allt í loft upp,“ segir Björn Leví.

„Ég er enn að reyna komast í að segja þetta á þann máta sem sprengir ekki allt í loft upp.“

„Það kom upp undir lokin á vinnunni að við tókum eftir því að það voru athugasemdir í greinargerðarskjölunum sem var verið að vinna sem kom frá ritara landskjörstjórnar, starfsmanni þingsins sem var að vinna í greinargerðinni hjá þinginu. Megin regla stjórnsýslulaganna fjallar um að sami aðili vinni ekki að málinu á mörgum stjórnsýslustigum, það varðar vanhæfni og býr til ákveðna hagsmunaárekstra sem við gátum ekki tekið þátt í,“ segir Björn Leví.

Aðili máls á mörgum stjórnsýslustigum

Að sögn Björns Leví sé málið ótrúlega erfitt. „Ég veit ekki hvernig ég á að segja það skýrt í rauninni án þess að detta í það að ásaka einhvern um að fara ófaglega að,“ og bætir við að málið varði nafnlausa embættismenn sem geta ekki varið sig. Björn Leví ítrekar þó að hann hafi ekkert út á faglegu vinnuna að setja annað en það að sami aðili vinni að málinu á mörgum stigum, það sé ekki faglegt.

„Efnislega hef ég ekkert undan vinnunni að kvarta nema þetta og ég veit ekki hvaða efnislegu áhrif þetta hafði,“ segir Björn Leví. Hann líkir málinu við kosningamálið sjálft, þar hafi ekki verið farið eftir grundvallar sjónarmiðum um vörslu kjörgagna, ákveðnir hlutir séu í lausu lofti.

Hvergi greint frá hagsmunaárekstrum

Björn Leví segir í samtali við Fréttablaðið að í greinargerðinni sé fjallað um aðkomu starfsfólks Alþingis, á sama tíma sé þó ekki greint frá hagsmunaárekstrunum.

„Það er skautað yfir það að þarna er hagsmunaárekstur og mér líður of illa með þann möguleika um áhrif útaf því til þess að geta kvittað undir,“ segir Björn Leví og bætir við að það valdi ákveðnu óöryggi gagnvart því að málið sé óhlutdrægt.

Í greinargerð nefndarinnar segir að skrifstofa Alþingis hafi veitt nefndinni sérfræðiaðstoð sem hafi meðal annars falist, „í faglegri ráðgjöf og yfirferð, gerð minnisblaða, aðstoð við gagnaöflun og vinnslu greinargerðar nefndarinnar. Þá annaðist skrifstofan samskipti við yfirkjörstjórnir, kærendur og aðra aðila, sat fundi nefndarinnar og aðstoðaði formann við skipulag þeirra og fylgdi nefndinni í vettvangsferðir. Skrifstofan vann fimm minnisblöð að beiðni nefndarinnar og voru þau unnin af hópi sérfræðinga á nefndasviði og lagaskrifstofu. Sami hópur hefur komið að vinnslu greinargerðar undirbúningsnefndarinnar.“

Hvergi er gerð grein fyrir mögulegum hagsmunaárekstrum, hvergi er greint frá því að einhverjir starfsmenn þingsins hafi jafnframt verið í Landskjörstjórn.

Vilja nýja kosningu á öllu landinu

Björn Leví segir lokatillögu flokksins vera að kosið verði að nýju á öllu landinu. Það liggi þó ekki augljóst fyrir af hverju, það sé í raun svolítið flókið.

„Löglega niðurstaðan er augljóslega uppkosning í Norðvesturkjördæmi, það er einfalda niðurstaðan eins og lögin eru. Svo þurfum við að hugsa um afleiðingarnar af því þegar allt kemur til alls.“

Að sögn Björns Leví telur hann ekki líklegt að niðurstaðan í málinu verði uppkosning, honum þykir allt benda til þess að síðari talningin verði kosin gild.