Fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson þarf að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. samtals 80 milljónir króna auk vaxta, eftir að Héraðsdómur Vesturlands féllst á kröfu Pressunnar þessa efnis. Þrotabú Pressunnar fór fram á riftun veðsetninga á eignum félagsins með lánasamningi sem gerður var milli Pressunnar og Björns Inga árið 2017, þegar hann var stjórnarformaður félagsins.
Dómsmálið kemur í kjölfar gjaldþrots Pressunnar, sem átti og rak eyjan.is, bleikt.is og 433.is auk þess sem félagið átti hlut í DV. Frjáls fjölmiðlun tók yfir eignir Pressunnar árið 2017 og inni í því var yfirtaka á 80 milljón króna skuldabréfi. Björn Ingi kvaðst hafa lánað Pressunni þá upphæð og átti að fá hana endurgreidda ári síðar, með allsherjarveði í Pressunni til tryggingar.
Þrotabú Pressunnar vildi hins vegar meina að Björn Ingi hafi ekki lánað téðar 80 milljónir og hafi tilbúin skuld verið yfirtekin með kaupsamningi Pressunnar ehf og Frjálsrar fjölmiðlunar.
Björn Ingi sagði hins vegar í málsvörn sinni að það hafi blasað við í september 2017 að Pressan yrði gjaldþrota yrði ekkert gert. Tekist hafi að halda félaginu gangandi yfir sumarið með greiðslum frá sér í samræmi við lánasamning hans við Pressuna. Þannig hafi hann í reynd fjármagnað félagið árum saman með lánum og persónulegum ábyrgðum þar sem hann þótti hafa meira lánstraust en félagið. Fór hann því fram á sýknu af kröfu Pressunnar.
Dómari í málinu sagði þó ekkert styðja við fullyrðingar um að Björn Ingi hafi lánað félaginu 80 milljónir króna, heldur hafi ráðstöfunin verið „örlætisgerningur“ sem leiddi til þess að eignir þrotabús Pressunnar rýrnuðu og til eignaaukningar hjá Birni Inga.
Var því fallist á kröfu Pressunnar og Birni Inga gert að greiða 80 milljónir króna.