Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, segir kröfu Lífeyrissjóðsins Gildi um gjaldþrotaskipti hjá Viljanum vera vegna mistaka en Mannlíf greindi frá því fyrr í dag að Héraðsdómur Vesturlands taki kröfuna fyrir þann 11. mars næstkomandi.
„Í annað sinn les ég fyrst um slíkt í fjölmiðlum, jafn fáránlegt sem það er og algjörlega að tilefnislausu,“ segir Björn Ingi í færslu um málið á Facebook og bætir við að málið hafi aldrei átt að fara á dagskrá Héraðsdóms.
Ósáttur við fréttaflutning
Fréttablaðið greindi frá því síðastliðinn október að Sýslumaðurinn á Vesturlandi hafi gert kröfu um gjaldþrotaskipti Útgáfufélags Viljans. Björn Ingi kvaðst ekki hafa heyrt þá af málinu fyrr en það endaði í fjölmiðlum en beiðni sýslumannsins var afturkölluð skömmu síðar.
Í færslu Björns Inga á Facebook gerir hann athugasemdir við fréttaflutning Mannlífs en að hans sögn voru mistök gerð í einni skilagrein sem hafi áður verið útskýrt. „Meint skuld er innan við 50 þúsund krónur, hvorki meira né minna.“
„Það er nógu erfitt að standa í baráttunni og halda sjó, þótt ekki sé sífellt vitlaust gefið með þessum hætti,“ segir Björn Ingi. „Mér er ekki skemmt yfir ítrekuðum tilraunum til að taka mann niður, það getur ekki verið að það liggi svona á að þagga niður í mér.“
Ég sé að Mannlíf slær því upp að Lífeyrissjóðurinn Gildi hafi farið fram á gjaldþrotaskipti hjá Viljanum skv. dagskrá...
Posted by Björn Ingi Hrafnsson on Miðvikudagur, 3. mars 2021