Björn Ingi Hrafnsson útgefandi Viljans hafði ekki heyrt af kröfu Sýslumannsins á Vesturlandi um gjaldþrotaskipti Útgáfufélags Viljans, þegar Fréttablaðið greindi frá kröfunni fyrr í kvöld. Björn Ingi greinir frá þessu í færslu á Facebook.

Eins og fram kemur í frétt Fréttablaðsins, verður krafa um gjaldþrotaskipti útgáfufélagsins, að óbreyttu tekin fyrir 12. nóvember næstkomandi í Héraðsdómi Vesturlands.

Hefur farið fram á afturköllun kröfunnar

„Ég las þetta því fyrst í kvöld. Um er að ræða lítið útgáfufélag með litlar skuldir og einn starfsmann (Björn Ingi á Viljanum) og þegar í kvöld hefur verið fram á afturköllun þessarar beiðni sem gengið verður frá í vikunni,“ segir Björn Ingi í færslunni.

Hann segir menn þurfi ekki að vera sérfræðingar til að átta sig á að hart sé í ári hjá fjölmiðlum í því ástandi sem nú ríki.

Hefur staðið Covid vaktina

„Ég hef staðið samviskusamlega vaktina í fréttum um COVID-19 án nokkurra opinberra styrkja og er bara stoltur af því,“ segir Björn Ingi og þakkar fyrir sig með orðunum: „Ég er þakklátur öllum sem leggja því lið og mun halda ótrauður áfram. Uppgjöf er ekki möguleiki í miðju stríði. Ást og friður.“

Vegna frétta á vef Fréttablaðsins í kvöld um að farið hafi verið fram á gjaldþrotaskipti Útgáfufélags Viljans vil ég...

Posted by Björn Ingi Hrafnsson on Tuesday, 27 October 2020