Fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson hefur verið dæmdur til að greiða þrotabúi Pressunar ehf. áttatíu milljónir króna. Landsréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands þess efnis í dag.

Héraðsdómur hafði áður fallist á kröfur Pressunnar ehf. um að veðsetningum á eignum félagsins, sem gerðar voru með lánssamningi milli Pressunnar ehf. og Björns Inga auk tryggingabréfs, yrði rift.

Dóms­málið hófst í kjöl­far gjald­þrots Pressunnar, sem átti og rak eyjan.is, bleikt.is og 433.is auk þess sem fé­lagið átti hlut í DV. Frjáls fjöl­miðlun tók yfir eignir Pressunnar árið 2017 og inni í því var yfir­taka á 80 milljón króna skulda­bréfi. Björn Ingi kvaðst hafa lánað Pressunni þá upp­hæð og átti að fá hana endur­greidda ári síðar, með alls­herjar­veði í Pressunni til tryggingar.

Þrota­bú Pressunnar vildi hins vegar meina að Björn Ingi hafi ekki lánað téðar 80 milljónir og hafi til­búin skuld verið yfir­tekin með kaup­samningi Pressunnar ehf. og Frjálsrar fjöl­miðlunar.

Björn Ingi sagði hins vegar í máls­vörn sinni að það hafi blasað við í septem­ber 2017 að Pressan yrði gjald­þrota yrði ekkert gert. Tekist hafi að halda fé­laginu gangandi yfir sumarið með greiðslum frá sér í sam­ræmi við lánssamning hans við Pressuna.

Þannig hafi hann í reynd fjár­magnað fé­lagið árum saman með lánum og per­sónu­legum á­byrgðum þar sem hann þótti hafa meira láns­traust en fé­lagið. Fór hann því fram á sýknu af kröfu Pressunnar.

Héraðsdómur sagði þó ekkert styðja við full­yrðingar um að Björn Ingi hafi lánað fé­laginu 80 milljónir króna, Landsréttur staðfesti þann dóm í dag.