Björk Guðmundsdóttir segir metoo-málin í dag vera orðin að einskonar bókhaldsatriði. Það þurfi að skoða hvert mál fyrir sig, meta út frá ýmsum þáttum og ekki sé hægt að „aflýsa“ eða „ekki aflýsa“ öllum.

Í viðtali við tónlistartímaritið Pitchfork árið 2015 lýsti Björk stöðu kvenna í tónlistarbransanum. Í viðtalinu eru meðal annars fræg ummæli Bjarkar um nauðsyn þess að láta karla halda að þeir eigi góðu hugmyndirnar.

Bergmálsklefinn hættulegur

Síðan eru liðin sjö ár og segir Björk að metoo-hreyfingin hafi breytt ýmsu. Hvað bakslag í jafnréttisbaráttu og baráttu hinsegin-samfélagsins segist hún ekki finna fyrir slíku í sínu nærumhverfi.

„Maður er svolítið umkringdur fólki sem hugsar eins og maður sjálfur, sem er smá hættulegt stundum,“ segir hún. „En ég held að þetta sé samt skref áfram.“

Björk segir að eftir Metoo hafi umræðan orðið svarthvít. „Annað hvort voru menn skrímsli eða englar,“ segir hún. „Önnur bylgjan var meira að fara inn í þetta gráa svæði.“

Björk segist hafa rætt það með vinkonum sínum, hvernig Metoo mál væru orðin að einskonar bókhaldsatriði í dag. „Ef Metoo atriði kemur upp á vinnustað þá er þetta svona: Já, ókei. Hversu alvarlegt var þetta? Einhver fjörutíu atriði sem þarf að greina og vita hvernig á að bregðast við. Ekki alltaf bregðast eins við og ekki alltaf bara kansel eða ekki kansel. Heldur er þetta bara bókhaldsatriði,“ segir hún.

Bakslag þegar risaeðlan sveiflar halanum

Björk segir mikilvægt að fólk leyfi sér að fara inn á gráa svæðið. „Af því að við getum ekki sett alla karlmenn sem hafa gert eitthvað á einhverja eyju og aldrei talað við þá aftur,“ segir hún. „Það þarf að vera fyrirgefning og það þarf að vera munur á brotunum. En með aukinni ábyrgð erum við öll að skilgreina þetta saman.“

Björk segist vildu óska þess að hún gæti hringt í #Metoo lögguna. „Og hún myndi bara sjá um öll þessi mál. En sá lúxus er ekki í boði. Við verðum sjálf að setjast niður með kaffibolla og leysa úr þessu, mál fyrir mál fyrir mál. Og þannig þroskast saman í rétta átt,“ segir hún. „Þannig að stutta svarið er, á það heila er þetta að fara í rétta átt. Það verður bakslag þegar risaeðlan sveiflar halanum. En á heildina séð er skipið að snúa í rétta átt.“

Björk Guðmundsdóttir ræddi ferilinn og plötuna við helgarblað Fréttablaðsins. Lesið hér.