Björk er meðal þeirra listamanna sem þeytir skífum á Austurvelli í kvöld á sérstökum dansleik til að vekja athygli á málstað flóttafólks á Íslandi. Viðburðurinn, Techno 4 refugees, er seinni hluti mótmæla sem flóttafólk sem býr á Íslandi boðar til í dag. Fyrri mótmælin verða klukkan þrjú í dag fyrir framan dómsmálaráðuneytið þar sem reynt verður að ná athygli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, dómsmálaráðherra.

Hópurinn býður fólki að mæta á Austurvöll og dansa fyrir málstaðinn.

„Komið, dansið og hafið hátt á Austurvelli á föstudaginn til að vekja athygli á málstaðnum og sýna að við erum hvergi nærri því að gefast upp, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir yfirvalda til að hundsa kröfur flóttafólks,“ segir á Facebook síðu hópsins.

Á viðburðinum verða plötusnúðar að þeyta skífum, listamarkaður og límonaði í boði.

Hópurinn hefur staðið fyrir mótmælum allan marsmánuð. Þá hafa verið haldin fjöldi mótmæla, þar sem flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd krefjast úrlausn mála sinna og bættum aðbúnaði.

Kröfur flóttafólksins eru að að öllum brottvísunum verði hætt samstundis, hælisleitendum verði tryggður réttur til að vinna á meðan þau eru á landinu, þeim verði tryggt öruggt húsnæði, jafn réttur til heilbrigðisþjónustu og að flóttamannabúðunum Ásbrú verði lokað.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um mótmælin á viðburðarsíðu hópsins á Facebook.

Frétt uppfærð 14.07: Björk hefur boðað forföll á dansleik fyrir flóttafólk, samkvæmt aðstandendum mótmælanna.