Bróðir Bjarkar heitir Arnar Sævarsson, og eru systkinin sammæðra. Björk segist hafa verið í samráði við hann þegar hún vann að tónlistarmyndbandi lagsins sem fjallaði um móður þeirra.

„Þetta er eiginlega meira eins og stuttmynd en tónlistarmyndband, segir hún. Andrew Thomas Huang leikstýrir myndbandinu. Hann hefur unnið mikið með Björk síðasta áratuginn og segist hún því hafa treyst honum vel fyrir þessu umfjöllunarefni.

„Við fórum og tókum upp kvikmynd úti, í dal þar sem mamma týndi mikið plöntur og þurrkaði síðan. Við horfðum síðan á þetta, ég og bróðir minn,“ segir Björk. „Við höfum vandað okkur rosalega varðandi hverju við viljum deila með heiminum og hverju ekki. Ég reyndi að gefa bróður mínum alltaf tækifæri til að geta sagt við mig: Nei þetta er of mikið. Að það væri alltaf tækifæri til þess,“ segir hún.

„Hann studdi mig í þessu. Hann sagði að mamma hefði örugglega orðið mjög ánægð með þetta og þakklát. Hún gerði líka plötu með mér þegar ég var 11 ára og var driffjöðrin i því og þess vegna var maður ekki eins feiminn. Það var eitthvað sem byrjaði þar og endaði, einhversstaðar þarna.“