Göngumaður sem staddur var norðvestur af Öskju var sóttur um klukkan átta í kvöld af björgunarsveitarfólki ásamt landvörðum Vatnajökulsþjóðgarðs en maðurinn hafði ræst neyðarsendi sinn þar sem hann var staddur í sjálfheldu.
Snjór er á svæðinu og þurfti því að notast við gönguskíði og vélsleða til að komast til mannsins sem var síðan fluttur með vélsleða að jeppa. Hann verður færður til öryggis á spítala til læknisskoðunar og búast má við því að þangað komi hann um miðnætti. Samkvæmt tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg virtist við fyrstu sýn lítið ama að manninum.