Björgunarsveitir hafa sinnt þremur útköllum það sem af er degi, vegna slysa á landi og báts í vandræðum á sjó. Fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu að það viðri víða vel til útivistar og því megi ætla að eitthvað sé af fólki á ferðinni.

Björgunarskipið Björg var kallað út frá Rifi rétt fyrir klukkan eitt í dag vegna vélarvana báts sem var á veiðum 15 sjómílur norður af Rifi. Skipverjar höfðu lent í einhverjum vandræðum og gátu ekki siglt fyrir eigin vélarafli. Á Breiðafirði er veðrið sæmilegt, kaldi og smá öldugangur. Áhöfn björgunarskipsins er komin með bátinn í tog og gerir ráð fyrir að vera komin með hann í land um klukkan 17.

Björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út stuttu síðar að Suðurstrandavegi vegna konu sem hafði hrasað á göngu suður af Þorlákshöfn og slasast. Aðstoða þurfti hana að sjúkrabíl sem komst ekki á vettvang.

Hópar björgunarsveitafólks sem voru við æfingar á Langjökli voru kallaðar til af Neyðarlínunni eftir að tilkynning barst 112 um slasaða konu á svæðinu. Snjóbíll og björgunarsveitarbíll fluttu konuna til móts við sjúkrabíl við Geysi.