Björgunarsveitir á Vesturlandi hafa verið kallaðar út vegna gönguskíðamanns sem sneri sig illa á fæti. Maðurinn er öruggur í hópi félaga sinna við Þursaborg á Langjökli og er hópurinn vel búinn.

Útkallið barst klukkan þrjú í dag og er hópurinn kominn hálfa leiðina til mannsins. Er þetta um 60 kílómetra ferð fyrir björgunarsveitarfólk innarlega í Borgarfirðinum. Þrír bílar er á leið með um tíu manns sem ætla að koma manninum af jöklinum en hann getur ekki gengið sjálfur.

Skyggni er gott og glampandi sól á jöklinum þó það sé kalt í veðri. Hópurinn heldur kyrru fyrir og bíður eftir aðstoð.

„Björgunarsveitir eru á leið á jeppum og fara svo hluta af leiðinni á sleðum,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

„Það er kalt og það er náttúrulega aldrei gott. En hann er þarna í félagsskap og er vel búinn, með skjól og heldur á sér hita. Það er ekki talin nein stórkostlega hætta á ferðum.“