Yfir hundrað eru látin og á fimmta þúsund slösuð eftir sprengingarnar í Beirút, höfuð­borg Líbanon í gær. Björgunar­starfs­menn leita nú í rústunum eftir yfir hundrað manns sem er enn saknað.

For­seti Líbanón, Michel Aoun, sagði í gær að 2.750 tonn af ammóníum-nít­rati sem var geymt í vöru­skemmu, við óviðunandi aðstæður, olli sprengingunni. Ammóníum-nít­rat er notað til á­búðar­fram­leiðslu, námu­vinnslu en einnig í sprengju­gerð, samkvæmt BBC:

Ríkis­stjórn Líbanon kemur saman í dag til að óska eftir því að neyðar­á­standi verður lýst yfir í landinu næstu tvræ vikur. Þriggja daga þjóðar­sorg hófst í dag.

Öll borgin skalf eftir sprenginguna við höfnina og mældust sprengingarnar 3,5 að stærð á jarð­skjálfta­mælum. Sam­kvæmt vitnum sem BBC ræddi við skalf öll borgin og gler brotnaði í bíl­rúðum og byggingum mörg hundruð metrum frá höfninni.

„Ég missti heyrnina í nokkrar sekúndur, ég vissi að eitt­hvað væri að og svo skyndi­lega flugu gler­brot yfir bílinn minn,“ segir Hadi Nasrallah í sam­tali við BBC. Rami Ru­hayem blaða­maður BBC sagði að gler­brot hafi þakið allar götur og þurfti jarð­ýtur að hreinsa göturnar svo sjúkra­bílar gætu komist að slösuðum í­búum.

Í­búar í allt að 240 km fjar­lægð fundu fyrir höggbylgjunni og héldu í­búar á eyjunni Kýpur að um jarð­skjálfti væri að ræða

Mikið björgunarstarf er framundan í Beirút
Ljósmynd/EPA
Fjölmargar byggingar í borginni gjöreyðilögðust í sprengingunni.
Ljósmynd/EPA