Björgunar­sveitir á Norður­landi voru kallaðar út um miðja nótt eftir að til­kynning barst frá manni sem var í sjálf­heldu í fjall­lendi.

Í til­kynningu frá Slysa­varna­fé­laginu Lands­björg kemur fram að upp­haf­leg stað­setning á manninum hafi bent til þess að hann væri á Strá­fjalli og hófst leit þar um klukkan fjögur í nótt. Hún skilaði aftur á móti ekki árangri og tókst við frekari eftir­grennslan að stað­setja manninn á Bjarnar­fjalli við Hval­vatns­fjörð austan megin við Eyja­fjörð. Voru björgunarsveitarmenn sendir þangað um klukkan 6 í morgun, bæði land­leiðina og á bátum.

Í tilkynningu sem lögreglan á Norðurlandi eystra birti á Facebook-síðu sinni í morgun kemur fram að maðurinn hafi verið á svipuðum slóðum og þýski ferðamaðurinn sem lést þarna í fjalllendi fyrir nokkrum dögum. „Þarna eru brattar og lausar skriður í sjó fram og því afar hættulegar aðstæður, “ segir í tilkynningu lögreglu.

Vegna erfiðra aðstæðna á vettvangi var óskað eftir þyrlu frá Landhelgisgæslunni til að aðstoða við björgunina. Um klukkan 08:40 var þyrla komin á vettvang og tókst að senda niður sigmann og hífa manninn um borð. Hann var fluttur til Akureyrar og kenndi sér ekki meins en er reynslunni ríkari, að sögn lögreglu.

Fréttin hefur verið uppfærð.