Hóparnir tveir sem björgunar­sveitir leituðu að við gos­stöðvarnar eru komnir í leitirnar. Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Lands­bjargar, segir tíu manns hafa verið flutta í bílum frá gossvæðinu.

„Fólkið hafði verið á göngu þarna, það var hund­leiðin­legt veður og svarta þoka og þau höfðu villst þarna á leiðinni, fyrsti hópurinn sem hringdi á neyðar­línuna hafði villst á leiðinni til baka,“ segir Davíð.

Engin slys urðu á fólki en fólk var orðið kalt og blautt og ramm­villt, að sögn Davíðs.

„Það var björgunar­sveitar­fólk sem mannaði þarna ein­hverjar lokanir og það fóru nokkrir hópar þarna um gossvæðið að skanna það til þess að leita sé allan grun að það séu ekki fleiri þarna í vand­ræðum og reyna að koma í veg fyrir að það verði eitt­hvað frekara bras þarna í kvöld,“ segir Davíð.

Hann segir fólkið hafa gert það rétta í stöðunni, að hringja í neyðar­línuna. „Fólkið gerði alla veganna það rétta, það hringdi og óskaði eftir hjálp í staðinn fyrir að vaða þarna um og lenda í ein­hverjum frekari ó­göngum,“ segir hann.

Davíð segist skilja að fólk vilji sjá eld­gosið. „Þetta er náttúru­lega magnað fyrir­bæri, það þarf bara að gera eins vel og hægt er í að upp­lýsa fólk og tryggja að­gengi og þess háttar á svæðinu,“ segir hann.