Björgunarsveitir luku störfum sínum um fimmleytið í morgun eftir að hafa unnið hörðum höndum í gærkvöldi og nótt við að aðstoða fólk sem sat í föstum bílum vegna færðar.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunarsveitin hafi verið kölluð út í gærkvöldi á Lyngdalsheiði við Þingvallaveg vegna fastra bíla.

Að sögn Davíðs hafi verið farið að skafa og skyndilega hafi á annan tug bíla verið fastir á Þingvallaveginum.

Fjórar sveitir voru sendar og tókst þeim á skömmum tíma að leysa bílana, segir Davíð og bætir við að hann hafi haldið að störfum björgunarsveita væri þar með lokið í gærkvöldi en það hafi ekki reynst raunin.

Fastir bílar á Hellisheiði

Björgunarsveitum barst útköll víðsvegar um landið vegna fastra bíla og á miðnætti í gær voru þær kallaðar út vegna fastra bíla í Þrengslunum.

„Það reyndist svo vera þannig að það var eitthvað um fasta bíla á Hellisheiðinni og Þrengslunum. Fólk var að festast í Kömbunum og nær Hellisheiðavirkjun og upp á Heiði þannig að björgunarsveitarfólk var að störfum til fimm í nótt til að flytja fólk neðan af heiðinni í skjól í Hveragerði,“ segir Davíð.

Samkvæmt Davíð opnaði Rauði krossinn fjöldahjálparstöð í Hveragerði fyrir farþega bílanna.

Hellisheiðin áfram lokuð

Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er Hellisheiðin enn lokuð og er ljóst að þegar vegurinn opnar þarf að ferja fólkið aftur í bíla sína.

Víða eru vegir lokaðir en til að mynda er Mosfellsheiðin er lokuð og það sama á við um Krýsuvíkurveg, Kjalarnes, Hellisheiðina og Þrengslin.

Hægt er að sjá færðarkort Vegagerðarinnar hér.

Þá eru veðurviðvaranir fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland Vestra í gildi. Fólk er hvatt til að kynna sér veður og færð áður en það heldur af stað í ferðalag.

Töluverð aukning útkalla

Að sögn Davíðs er fjöldi útkalla þar sem af er ári talsvert meiri en í fyrra. „Upphafið á þessu ári er klárlega vel yfir meðallagi.“

Samkvæmt Davíð hafa hátt í 300 útköll borist í febrúar samanborið við 56 útköll í febrúar í fyrra.

Þá hafi einnig verið aukning í janúarmánuð. Í heild sinni hafi útköllin farið úr 150 í 450 það sem af er ári.