Björgunarsveitarmenn sem sinna gæslu og annarri vinnu á gossvæðinu í Meradölum fá engin laun fyrir vinnu sína. Mikið mæðir nú á Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, sem sinnir vöktum á gossvæðinu auk þess sem unnið er við að stika gönguleiðir að gosinu.

Að sögn Steinars Þórs Kristinssonar, svæðis­stjóra al­manna­varna hjá Björgunar­sveitinni Þor­birni, fá sveitirnar greiðslur samkvæmt samningi þegar um er að ræða almannavarnaástand eins og nú og almannavarnastigi hefur verið lýst yfir.

„Sveitirnar fá greiðslur fyrir þjónustu eftir ákveðinn tíma. Það fer í að dekka fastan kostnað, enda er gríðarlegt álag á tæki og búnað,“ segir hann.

Aðspurður segir hann ekki um neinar greiðslur að ræða til björgunarsveitarmanna.

„Nei, það er ekkert svoleiðis. Þarna er þessi fína lína á milli sjálfboðaliðastarfsins og atvinnuliðsins. Um leið og við erum farin að taka laun fyrir okkar þjónustu þá erum við komin í allt annan pakka,“ segir Steinar. „Þegar ég fer að selja mig út sem iðnaðarmann er ákveðin ábyrgð sem fylgir og ákveðnar skyldur og eins líka ef þessu er sinnt í launaðri vinnu, hvar eigum við að stoppa? Á meðan við náum að manna þetta og eigum í rauninni „good will“ hjá þjóðinni, þá held ég að þetta sé skásta fyrirkomulagið. Ég held að þetta sé besta leiðin,“ segir Steinar.