Björgunarsveitarmaður Árborgar vandar sig nú við að klifra upp á Ölfusársbrú til að hengja upp jólaljósin.

Þó nokkrir vegfarendur fylltust áhyggjum við að sjá björgunarsveitarbílinn við brúna og töldu að björgunaraðgerðir væru í gangi.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, fullvissar blaðamann að ekkert slys hafi orðið við Ölfusá, það sé bara kominn tími á tendrun jólaljósanna.

Fyllsta öryggis er gætt að setja upp jólaseríuna en öryggislínur eru strengdar eftir brúarstrengjunum á meðan björgunarfélagsmenn Árborgar klifra þar upp og niður.

Hæsti punktur brúarinnar er í um 20 metra hæð yfir yfirborði árinnar og hafa björgunarsveitarmenn áður lýst því að það sé ansi „hressandi“ að sitja uppi á hæsta punkti á meðan þungir bílar keyra yfir brúna og sveifla henni til.