Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík, segir marga ferðamenn verða ansi bugaða á leið sinni að eldgosinu í Meradölum.

„Björgunarsveitarfólk er bara farið að þurfa gefa nestið sitt, sem er ekki sniðugt“ segir Bogi. Fólk sé ekki að átta sig á orkuþörfinni á göngunni og sé ekki með nesti í takt við það.

Metaðsókn var að gosstöðvunum yfir helgina en Bogi telur líklegt að um tuttugu þúsund manns hafi lagt leið sína þangað.

Bogi segir vinnu við að laga aðgengi að gosinu ganga vel þó að hún hafi tafist aðeins vegna mikils fólksfjölda. „Fólk þarf að gefa okkur smá svigrúm til að klára þetta, þetta er allt gert fyrir fólkið.“

Aðspurður um slys á fólki segir Bogi breytt mynstur í slysum. Þegar eldgosið hófst hafi verið mikið um ökklabrot en nú sé mikið um slys á höndum og andliti.

Bogi segir mikið um skrámur í andliti og handleggsbrot, fólk sé að hrasa og bera fyrir sig hendur. Hann segir útköll sjúkrabíla tíð, „fólk var farið að spyrja hvort sjúkrabíll væri á vakt upp frá.“

Alls eru um þrjátíu starfandi björgunarsveitarfólk á hverjum tíma við gosstöðvarnar að sögn Boga í fullri vinnu. Eftir daginn sé fólk búið á því, vinnan taki vel á.

Fyrri part dags sé mest um ferðamenn við gosið en Íslendingarnir komu seinni partinn í ljósaskiptunum. „Ég bið þá um að hugsa um að vera með gott nesti og taka af okkur verkefni með að hugsa vel um sig sjálfa.“

Bogi er spenntur fyrir komu landvarðanna en hann segir þá geta létt verulega á björgunarsveitarfólki varðandi upplýsingaflæði og slíkt.

Bogi leggur áherslu á að fólk sem komi í Meradali vandi sig við að leggja bílum, næsta stæði losni ekki fyrr en eftir um það bil fimm klukkustundir.

„Þetta tekur alveg upp í fimm klukkustundir ef þú ætlar að sitja og njóta aðeins við gosið.“