„Þessi staða er auðvitað grafalvarleg,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands, um þá stöðu að frá miðnætti í kvöld verður engin björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar til reiðu í að minnsta kosti tvo sólarhringa.

Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni hafa verið í verkfalli frá 5. nóvember. Svokallaðir spilmenn í áhöfnum björgunarþyrla Gæslunnar sem eru flugvirkjar eru þó ekki í verkfalli og hafa þeir getað haldið í notkun einu flughæfu þyrlunni, TF-GRÓ. Nú er hins vegar komið að reglubundnu viðhaldi á þyrlunni. Það geta spilmennirnir annast en það tekur minnst tvo sólarhinga að ljúka því.

„Undanfarnar vikur höfum við haft eina þyrlu til taks, TF-GRÓ. Við höfum lagt allt kapp á það að hún sé útkallshæf og fær til þess að sinna neyðarþjónustu. En nú liggur fyrir að á miðnætti þarf hún að fara í reglubundna skoðun sem tekur að lágmarki tvo daga. Þar af leiðandi verður engin þyrla til taks á meðan,“ útskýrir Ásgeir.

Tvær aðrar þyrlur Gæslunnar eru úr leik. TF-EIR er í viðhaldi og hin 34 ára gamla TF-LÍF hefur verið sett á sölu og verður ekki notuð af Gæslunni framar.„Þegar verkfallið skall á þá var TF-EIR í viðhaldi og þessar tæpu þrjár vikur sem verkfallið hefur staðið yfir hefur engin viðhalds­vinna getað farið fram á TF-EIR. Upphaflega áætlunin var sú að TF-EIR hefði átt að vera tilbúin þegar TF-GRÓ færi í þessa viðhaldsskoðun sem hún er að fara í,“ segir Ásgeir.

Ýmislegt getur komið upp á við skoðunina og hún tekið lengri tíma en tvo daga, sem Ásgeir kveðst auðvitað vonast til að verði ekki.„Auðvitað er það ekki kjörstaða að hafa aðeins eina björgunarþyrlu til taks en það er grafalvarleg staða að hafa enga þyrlu til taks. Og það er sömuleiðis alvarlegt að þessi viðhaldsþörf eykst með hverjum degi og vandamálið stækkar þar af leiðandi,“ segir Ásgeir.

Dómsmálaráðherra tekur undir áhyggjur

Í yfirlýsingu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er skorað á samninganefnd „að leita allra leiða til að ná samningum við flugvirkja Landhelgisgæslunnar og koma í veg fyrir grafalvarlegt ástand sem skapast þegar keðja neyðarþjónustu er rofin“.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tekur undir þessar áhyggjur. „Flugvirkjum standa auðvitað til boða sömu launahækkanir og aðrir opinberir starfsmenn hafa fengið og það er miður að ekki hafi náðst að semja,“ segir hún.

Áslaug segir valkosti í stöðunni hafa verið rædda í ríkisstjórn í gær. Lög á verkfallið væru ein af leiðunum. Hún átti einnig fund með Georg Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar. „Hann ætlar að skila mér ítarlegri greiningu á langtímaafleiðingum ef þetta stendur lengur yfir,“ segir ráðherrann.

Ekki er að vænta aðstoðar á næstu dögum frá Dönum sem hafa lánað Landhelgisgæslunni þyrlur af varðskipum sínum.

„Landhelgisgæslan er með samning við Dani og þyrlur dönsku varðskipanna hafa gjarnan verið til taks fyrir Landhelgisgæsluna ef eftir því hefur verið leitað, en sá möguleiki er ekki fyrir hendi nú þar sem danskt varðskip er ekki í nágrenni við Ísland,“ segir Ásgeir Erlendsson.