Ragnar Guð­munds­son, flug­véla­verk­fræðingur hjá Rann­sóknar­nefnd sam­göngu­slysa, er við Þing­valla­vatn og segir að björgunin á vélinni TF-ABB af botni vatnsins hafi gengið eins og í sögu í dag. Flug­vélin hefur verið fest við björgunar­bátinn Trölla sem flytur vélina í víkina þar sem að hún verður að lokum hífð.

„Það gengur glimrandi vél. Þeir eru frekar ný­lega lagðir af stað með vélina,“ segir Ragnar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að í víkinni sé mestur við­búnaður og að krani muni hífa vélina þar upp. Hann sér ekki fyrir hversu langan tíma þetta tekur í heildina.

„Það er erfitt að segja. Það tekur dá­lítinn tíma að sigla með hana í land,“ segir Ragnar en í til­kynningu lög­reglunnar kemur fram að það muni að öllum líkindum taka um 40 mínútur að sigla með hana í land.

Verður pakkað inn og flutt í bæinn

Í til­kynningu frá lög­reglunni kemur fram að búið sé að koma fyrir stórum krana í landi sem mun hífa vélina upp úr vatninu. Áður en það er gert er raf­einda­búnaður og aðrir lausa munir fjar­lægðir úr vélinni.

Eftir að vélin er komin á land verður farið yfir hana.

„Svo er eftir rann­sóknar vinna á landi og svo er henni pakkað inn, hún sett á bíl og flutt í bæinn,“ segir Ragnar.

Spurður hvort að vélin sé mikið skemmd segir hann að það eigi eftir að skoða það og það komi ekki í ljós fyrr en hún er komin á land.