Tveimur mönnum var bjargað úr lítilli flugvél sem flogið hafði á raflínu í Maryland-fylki í Bandaríkjunum í nótt. Flugvélin hékk í 30 metra hæð og höfðu mennirnir verið fastir í flugvélinni í nokkrar klukkustundir áður en loks tókst að bjarga þeim.
AP News greinir frá því að Scott Goldstein, slökkviliðsstjóri í Montgomery-sýslu, sagði mönnunum hafa verið um hálf eitt að nóttu til að staðartíma, en flugvélin hafði skollið í raflínuna tæpum sex klukkustundum áður.
Hann sagði báða mennina hafa orðið fyrir alvarlegum meiðslum og að þetta væru bæði menn á sjötugsaldri. Mennirnir voru báðir fluttir á sjúkrahús í nágrenninu en meiðsli þeirra voru ekki metin lífshættuleg.
Flugmálastjórn Bandaríkjanna fékk tilkynningu um slysið nokkrum mínútum eftir að flugvélin festist í raflínunni, klukkan 17:40 á staðartíma.
Rafmagnsleysi varð á svæðinu í kjölfar slyssins og hafði það áhrif á um 120 þúsund manns. Áður en rafmagninu verður komið aftur á, verður að fjarlægja flugvélina úr raflínunni. Þá staðfesti talsmaður slökkviliðsins að engir skólar yrðu á rafmagnslausa svæðinu í dag, mánudag.

