Björgunarsveit var kölluð til í dag þegar tíu ára stúlka lenti í sjálfheldu í gili hlíðum Esjunnar fyrir ofan bæinn Skrauthóla á Kjalarnesi.

Stúlkan hafði verið á göngu með fjögurra manna fjölskyldu sinni en foreldrar hennar misstu sjónar á henni þegar hún klifraði upp í klettana fyrir ofan. Faðir stúlkunnar heyrði í henni í klettunum en sá hana hvergi og kallaði þá á hjálp.

Frímann Andrésson, í aðgerðarstjórn björgunarsveitanna segir í samtali við Fréttablaðið

„Það voru samtals átta manns í fjallinu sem leystu málið.“ Þeir þurftu að fara fyrir ofna stúlkuna og setja línu til hennar, hjálpa henni upp úr gilinu og fylgja henni svo niður." Aðgerðin gekk vel og veðurskilyrði voru mjög góð. Stúlkan slapp ómeidd en hún var orðin skelkuð þegar viðbragðsaðilar komu að henni.

Björgunarsveitin á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ kom að björguninni en einnig aðstoðuðu tvær björgunarsveitir úr Reykjavík.

„Esjan er náttúrulega okkar heimafjall,“ segir Frímann. „Við erum þó ekki oft á þessum stað en oftar í grennd við helstu gönguleiðirnar upp á Esjuna og þá helst gönguleiðina upp á Þverfellshorn. En fjölskyldan var á göngu í grennd við bæinn sem þau gista á.“ Fjölskyldan er erlent ferðafólk.

Alls komu um 25 manns að björguninni.
Mynd/Landsbjörg