Björgunar­sveitir víða um land höfðu í nægu að snúast í vonsku­veðrinu sem gengið hefur yfir landið síðustu sólar­hringa, en alls sinntu björgunar­sveitir í kringum tuttugu verk­efnum. Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsingar­full­trúi Slysa­varnar­fé­lagsins Lands­bjargar, segir út­köllin hafa byrjað strax í há­deginu.

„Það var hópur á há­lendi­svakt í Land­manna­laugum sem voru send á Laugar­veginn. Þar voru þrír göngu­menn, blautir og hraktir og voru orðnir nokkuð þrek­litlir þegar björgunar­sveitar­fólkið fann þá, en þá höfðu bæst tveir aðrir göngu­menn í hópinn,“ segir Davíð.


Klukku­tíma síðar hafi borist önnur til­kynning vegna hesta­manna sem höfðu villst í mjög lé­legu skyggni ná­lægt Land­manna­helli, og á sama tíma hafi björgunar­sveitar­fólk og sjúkra­flutningar­menn verið send upp í Emstru­botna í grennd við Emstru­skála.

„Í ein­hverjum til­fellum var lífum bjargað með því að vera á staðnum og sinna þessu fólki og koma til byggða“

„Þar fannst á göngu­leiðinni of­kældur göngu­maður sem var í mikilli hættu og á ekki góðum stað í mjög slæmu veðri. Hann var sam­stundis fluttur með björgunar­sveitar­bíl,“ segir Davíð, og bætir við að í flestum verk­efnum björgunar­sveitar­fólks á há­lendi­svakt hafi yfir­leitt verið ein­hverjir aðrir göngu­menn sem urðu á vegi þeirra.

„Það var víða fólk á ferli á há­lendinu sem var ein­fald­lega ekki búið til að takast á við þetta veður. Margir af þessum göngu­mönnum voru í raun og veru orðnir ör­magna og jafn­vel búnir að gefast upp á göngunni. Þannig þetta sannað sig hvað þetta skiptir miklu máli, að vera með hóp af björgunar­sveitar­fólki upp á há­lendi til að bregðast við þegar eitt­hvað bjátar á,“ segir Davíð, og bætir við. „Í ein­hverjum til­fellum var lífum bjargað með því að vera á staðnum og sinna þessu fólki og koma til byggða,“ segir Davíð.