Björgunar­sveitir af höfuð­borgar­svæðinu björguðu konu úr sjálf­heldu á Vífils­felli í kvöld. Konan var ein á ferð og hafði komið sér á stað í fjallinu sem hún komst ekki af. Að­gerðin gekk vel og er konan komin niður heilu og höldnu.

Útkallið barst rétt fyrir klukkan sex.
Landsbjörg

Út­kall barst rétt fyrir klukkan sex í kvöld og komu rúm­lega 50 björgunar­sveitar­menn að björguninni að sögn Davíðs Más Bjarna­sonar, upp­lýsinga­full­trúa Lands­bjargar. Þeir komu fyrir köðlum í hlíðum fjallsins til að styðjast við því víða var mjög hált og snjór.

Davíð segir konuna hafa gert hár­rétt þegar hún kallaði eftir að­stoð björgunar­sveita því að­stæður voru þannig að það hefði verið hættu­legt fyrir hana að reyna að flytja sig á­fram eða til baka á þeim stað sem hún var í fjallinu.

Aðgerðin gekk vel að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
Landsbjörg