Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu kom ketti til bjargar í gærkvöld.

Kötturinn hafði verið fastur uppi í tíu metra háu tré í um það bil sólarhring og bar sig illa, að því er fram kemur á Facebook-síðu slökkviliðsins.

Að sögn slökkviliðsins var kötturinn feginn björguninni þó hann hafi ekki þakkað fyrir sig þegar hann lét sig hverfa aftur út í myrkrið.

Nóg hefur verið að gera hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu vegna hálkuslysa gangandi og akandi vegfarenda.

Biður slökkviliðið fólk um að fara varlega í umferðinni og taka því rólega.