Björgunarsveitir Landsbjargar björguðu 20 ferðamönnum úr rútu sem sat föst í Krossá í kringum fimm leitið í dag. Engin slys urðu á fólki og voru viðbrögð björgunarsveita skjót.

Jón Hermannsson, í svæðisstjórn björgunarsveita Landsbjargar sagði að björgunaraðgerðir hefðu gengið eins og í sögu.

„Rútan var föst í tiltölulega grunnu vatni og litlum straum. En það voru tæplega 20 manns um borð en það var svosum engin hætta,“ segir Jón en ferðamennirnir voru færðir úr rútunni og í bíla björgunarsveitarinnar. Þeir voru svo ferjaðir til móts við aðra rútu frá sama ferðaþjónustufyrirtæki.

„Við drógum svo rútuna úr ánni til þess að hægt væri að ná farangrinum“ segir Jón en hann segir að ekki hafi verið ljóst á slysstað hvort skemmdir hafi orðið á rútunni.

„Þetta gekk allt saman glimrandi vel en auðvitað ábending í hlýindunum á suðurlandi að fara varlega við vatnsföll því það hefur helst til aukist í þeim síðustu daga.“