Um 150 manns sátu föst á veginum undir Eyja­fjöllum á Sól­heima­sandi í nótt. Björgunar­sveitir Suður­lands stóðu í ströngu og sinntu björgunar­störfum við­stöðu­laust alla nóttina. Jón Her­manns­son, að­gerðar­stjóri Björgunar­sveitarinnar á Suður­landi, var mættur aftur til vinnu í morgun eftir að hafa staðið vaktina í nótt þegar Frétta­blaðið náði tali af honum.

50 bíla bíla­lest sat föst

„Þetta byrjaði á því að bíll festist í snjó á brúnni yfir Jökuls­á á Sól­heima­sandi og á meðan við­bragð­aðilar voru á leiðinni til að bjarga honum myndaðist um 50 bíla bíla­lest beggja vegna við bílinn og allt varð strand,“ segir Jón.

Mjög slæmt veður var á svæðinu og snjór hlóðst að bíla­röðinni. Skyggni var af­leitt og þannig að ekki sást fram fyrir vélar­hlífar bif­reiðanna. Þegar var hafist handa við að greiða úr flækjunni en á endanum hafði björgunar­fólk flutt fólk úr bílunum í húsa­skjól.

Verið er að opna vegi á Suðurlandi.

Hundrað gistu í fjölda­hjálpar­stöð

Rauði krossinn opnaði fjölda­hjálpar­stöð í Heima­landi þar sem um hundrað manns fengu gistingu á rúm­lega 60 dýnum. „Hitt fólkið var flutt í gistingu á Hótel Skóga­foss og ferða­þjónustu­bæi í grenndinni.“

Meiri­hluti fólksins voru er­lendir ferða­menn sem voru alls ó­vanir slíkri færð. „Margir voru auð­vitað tölu­vert skelkaðir en það sýndu allir mikla stillingu og voru sam­vinnu­þýðir.“

Björgunar­sveitin fékk að­stoð við að­gerðirnar frá ferða­þjónustu­aðilum og bændum í grenndinni og telur Jón að um hundrað manns hafi tekið þátt í björgunar­að­gerðunum í nótt.

Vegurinn enn lokaður

Vegurinn hefur enn ekki verið opnaður þar sem fjölda bíla sitja þar enn fastir. Í morguns­árið hefur verið unnið hart að því vinda ofan af á­standinu með því að koma öku­mönnunum aftur í bílana til að auð­velda Vega­gerðinni fyrir. „Það er þegar búið að koma hluta af bílunum í gang og koma þeim í um­ferðina á ný.“

Að­spurður hvort að­gerðin hafi tekið á segir Jón engan í björgunar­sveitinni láta slíkt á sig fá. „Við erum bara hamingju­söm í dag þar sem tókst að bjarga öllum án þess að upp kæmu slys eða vand­ræði.“