Björg Thorarensen og Ása Ólafsdóttir, báðar prófessorar í lögum við Háskóla Íslands, verða dómarar við Hæstarétt samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra. Kynjahlutföll hafa aldrei áður verið eins jöfn við réttinn en með skipuninni munu þrjár konur sitja í réttinum og fjórir karlar.

Athygli vekur að hvorki Björg né Ása voru metnar í hópi þeirra hæfustu í fyrstu drögum dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómaraembætti. Í fyrstu drögum voru fjórir landsréttardómarar í hópi umsækjenda metnir hæfastir. Prófessorarnir tveir hafa báðar minni dómarareynslu en dómararnir. Eins og Fréttablaðið greindi frá voru álitsdrögin gagnrýnd sérstaklega, fyrir ofuráherslu á dómarareynslu umsækjenda, enda Hæstiréttur með annars konar hlutverk en aðrir dómstólar í landinu.

Dómnefndin breytti hins vegar niðurstöðu sinni eftir að andmæli komu fram og bætti þeim Ásu og Björgu í hóp hæfustu umsækjenda.

Ása - sérfróð á sviði samningaréttar

Ása Ólafsdóttir lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1996 og framhaldsnámi frá Cambridge-háskóla árið 2000. Hún starfaði í nokkur ár sem lögmaður og hefur flutt fjölda mála fyrir dómstólum. Hún snéri sér svo að fræðimennsku. Hún varð dósent við Háskóla Íslands árið 2012 og prófessor árið 2018. Meðal annarra fræðisviða hefur Ása lagt sérstaka áherslu á samningarétt. Ása var settur dómari við Landsrétt 25. febrúar -  30. júní 2020 og að auki hefur hún sinnt fjölmörgum öðrum störfum, svo sem formennsku í gjafsóknarnefnd og óbyggðanefnd, og átt aðkomu að samningu fjölda lagafrumvarpa.

Björg - sérfróð á sviði stjórnskipunarréttar

Björg Thorarensen lauk laganámi frá Háskóla Íslands árið 1991 og framhaldsnámi í lögfræði frá Edinborgarháskóla árið 1993. Hún starfaði lengi í dómsmálaráðuneytinu, lengst sem skrifstofustjóri. Björg varð prófessor við lagadeild Háskóla Íslands árið 2002 og hefur verið afkastamikill fræðimaður einkum á sviði stjórnskipunarréttar og mannréttinda, en einnig á sviði þjóðaréttar, persónuverndarréttar, stjórnsýsluréttar og sakamálaréttarfars. Björg hefur gegnt fjölda annarra starfa samhliða prófessorsstarfi sínu, meðal annars sem stjórnarformaður Persónuverndar og umboðsmaður ríkisstjórnarinnar við Mannréttindadómstól Evrópu. Björg var settur dómari við Landsrétt 1. janúar – 30. júní 2020.