Bjór er sú matvara sem hefur hækkað minnst á Íslandi á einu ári, aðeins 4,7 prósent frá desember árið 2021 til desember árið 2022. Nautakjötið hefur hins vegar hækkað um 21,3 prósent.

Heilt yfir hefur matvara á Íslandi hækkað um 10,5 prósent. Þetta er mun minni hækkun en meðalhækkun matarverðs í ríkjum Evrópusambandsins, sem er 18,2 prósent. Hafa ber þó í huga að matarverð á Íslandi er með því hæsta.

Hér hefur kjötvara hækkað mest. Lambakjöt hefur hækkað um 19,2 prósent, alifuglakjöt um 14,6 og svínakjöt um 12 prósent. Hækkun kjötvara er í heildina 17,8 prósent.

Önnur vara sem hefur hækkað óvenjulega mikið á Íslandi eru kaffi og te, 18,5 prósent, en flestar aðrar vörur hafa hækkað um 8 til 10 prósent. Svo sem mjólk og ostar, egg, kornmeti, grænmeti og ávextir.

Í Evrópu er mikil hækkun í mjólkurvörum og kornmeti. En stór hluti korns var innfluttur frá Rússlandi og Úkraínu fyrir stríð. Langmesta hækkunin er hins vegar í sykri, 56,6 prósent. Hér á Íslandi hefur sykur aðeins hækkað um 7,8 prósent.