Næstkomandi mánudag mun bjöllum í rúmlega áttatíu kauphöllum víðs vegar um heiminn verða hringt fyrir jafnrétti til að fagna alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars. Á Íslandi mun Katrín Jakobsdóttir, forsætis- og jafnréttisráðherra, hringja bjöllunni í Nasdaq kauphöllinni.

Viðburðurinn er samstarfsverkefni UN Women á Íslandi, Félags kvenna í atvinnulífinu, Kauphallarinnar og Samtaka atvinnulífsins og í ár er sjónum beint að kvenleiðtogum, kvennasamtökum og kvennastéttum og hlutverki þeirra við að móta jafnari framtíð í kjölfar COVID-19 faraldursins.

Kristín Jóhannsdóttir, samskiptastjóri hjá Nasdaq á Íslandi, segir mikilvægt að minna á bæði baráttu kvenna um allan heim og mikilvægi jafnréttis á atvinnumarkaði. „Með bjöllunni búum við til hávaða til að benda á þetta mikilvægi.“

Kristín segir nauðsynlegt að raddir allra kynja fái að heyrast í atvinnulífinu. „Við höfum lengi haldið því fram að það sé gríðarlega efnahagslega vitlaust að nýta ekki starfskrafta helmings vinnuafls í landinu almennilega og tryggja þar af leiðandi ekki að ólíkar skoðanir séu uppi á borðinu,“ segir hún og vísar til þess að á meðal 100 stærstu fyrirtækja á landinu sé hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum aðeins 23 prósent og í stjórnum sömu fyrirtækja um 26,5 prósent.

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq kauphallarinnar á Íslandi og Kristín Jóhannsdóttir, samskiptastjóri hjá Nasdaq á Íslandi.
Fréttablaðið/Ernir

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq kauphallarinnar á Íslandi, segir mikla vinnu hafa farið fram undanfarin ár til að efla þátttöku allra kynja í viðskiptaheiminum en að mikilvægt sé að halda áfram. Nauðsynlegt sé að tryggja jafnan aðgang kynja að ákvörðunartöku við gerð stefnumála og laga sem og við stjórnun fyrirtækja. „Á þessum degi viljum við beina ljósinu að og fagna afrekum kvenleiðtoga, kvennasamtaka og kvennastétta og hlutverki þeirra við að móta jafnari framtíð, ekki síst í kjölfar COVID-19,“ segir hann.

„Það er oft nefnt að Ísland sé fremst í flokki þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Það er vissulega góður staður til að vera á, en það er mikil áskorun að vera fremstur, því við leiðum þær breytingar sem önnur lönd hafa litið til,“ segir Magnús.

„Ójafnrétti er lúmskt fyrirbæri sem raungerist í samfélaginu með ýmsum hætti, og því verðum við að halda vöku okkar. Því er mjög mikilvægt að hafa hátt á þessum degi og bera skilaboðin sem víðast,“ bætir Magnús við.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn 8. mars á hverju ári og tekur Kauphöllin nú þátt í að fagna honum í fjórða sinn. Magnús hvetur sem flesta til að taka þátt í viðburðum sem þessum og segir að nauðsynlegt sé að auka sýnileika kvenna innan viðskipta. „Samfélög eru byggð upp af öllu því fólki sem þar býr og því er það ekki bara rétt, heldur hreinlega nauðsynlegt fyrir þau, að nýta allan þann mannauð sem þau búa yfir og veita öllum jöfn tækifæri,“ segir hann.

Katrín Jakobsdóttir mun hringja bjöllunni í Hörpu á mánudaginn klukkan 9.15 og verður streymt á heimasíðum og Facebook þeirra sem að viðburðinum standa.