Skemmti­krafturinn Björn Bragi Arnars­son hefur á­kveðið að stíga til hliðar sem spyrill í spurninga­keppni fram­halds­skólanna, Gettu betur, en hann hefur sinnt starfinu undan­farin fimm ár.

Björn Bragi greinir frá á Face­book en hann segist með á­kvörðuninni vilja axla á­byrgð í verki. Mynd­band sem sýnir þegar hann káfar á ungri stúlku hefur verið deilt víða á sam­fé­lags­miðlum frá því í gær en það var tekið upp á veitinga­stað á Akur­eyri um liðna helgi. Mynd­bandið hefur vakið tals­verða reiði og hafa margir kallað eftir því að Birni verði sagt upp störfum. 

Sjá einnig: „Ég gekk of langt og tek fulla á­byrgð“

Áfengi engin afsökun

„Ég vil ekki að þetta at­vik eða um­ræða um það varpi skugga á það frá­bæra prógram sem Gettu betur er,“ skrifar hann í færslunni. Hann hafi rætt við Skarp­héðin Guð­munds­son, dag­skrár­stjóra RÚV, og greint honum frá á­kvörðuninni. RÚV sendi frá sér yfir­lýsingu í morgun þar sem mál Björns Braga var sagt vera til skoðunar og að yfir­menn hjá stofnuninni væru með­vitaðir um at­vikið. 

Sjálfur sendi Björn Bragi frá sér yfir­lýsingu vegna at­viksins í nótt þar sem hann baðst af­sökunar. „Þessi hegðun mín var al­gjör­lega ó­á­sættan­leg og ég er miður mín yfir því að hafa hagað mér með þessum hætti,“ segir Björn Bragi og bætir við að það að hann hafi verið undir á­hrifum á­fengis sé engin af­sökun.

Afboðaður í uppistand hjá Íslandsbanka

Hann hafi haft sam­band við stúlkuna sem um ræðir auk móður hennar. Þær hafi tjáð honum að fjöl­miðlar hafi reynt að ná tali af þeim vegna málsins. „Hún vildi koma á fram­færi ósk um að þau yrðu látin í friði,“ skrifaði hann og í­trekaði að það væri einnig hans vilji. „Ég ber alla á­byrgð hér,“ skrifaði hann að lokum.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að fjármögnunarþjónustan Ergo, sem er í eigu Íslandsbanka, hafi hætt við að bjóða viðskiptavinum sínum upp á uppistand með Birni Braga en til stóð að það færi fram í gleðskap í lok nóvember. Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, staðfesti að ákvörðunin hefði verið tekin í morgun í kjölfar atviksins um helgina.

Gettu betur hefst að nýju í janúar þar sem framhaldsskólar landsins munu etja kappi í baráttunni um hljóðnemann víðfræga.

Fréttin hefur verið uppfærð.