Slæm veðurspá og gular og appelsínugular viðvaranir eru um nærri allt land þar til í kvöld eða í nótt. Þrátt fyrir tilkynningar um lokanir víða vegna veðurs hefur björgunarsveitin verið kölluð út víða vegna bíla sem sitja fastir í ófærð. 

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg að rétt í þessu hafi björgunarsveitir á Suðurlandi verið kallaðar út vegna bíla sem sitja fastir í ófærð á Hellisheiði og Þrengslum. Þeim var báðum lokað rétt fyrir klukkan 17 í dag og segir í tilkynningunni að áður en útkall hafi borist hafi björgunarsveitir verið mættar til að manna lokanir á Hellisheiði, Þrengslum og Lyngdalsheiði.  

Þá segir einnig að á Norðurlandi hafi björgunarsveitir farið til aðstoðar bílstjórum í Ljósavatnsskarði, við Héðinsfjarðagöng þar sem tveir bílar lentu í árekstri við Húsavík. Um tuttugu björgunarmenn eru nú í verkefnum við Eyjafjörð þar sem nokkuð af bílum sitja fastir.

Á Austurlandi manna björgunarmenn lokun á Fagradal en þar geisar mikið illviðri eins og víðast hvar á Norður- og Austurlandi.

Alls hafa um fimmtíu manns sinnt útköllum björgunarsveita í dag.

Lokanir víða

Hellisheiði og Þrengslum var lokað rétt fyrir klukkan 17 í dag. Á Norður­landi hefur Siglu­fjarðar­vegi og Ólafs­fjarðar­múla verið lokað, sem og Möðru­dals­ör­æfum og Hófa­skarði á Norð­austur­landi. Á Austur­landi er lokað yfir Fjarðar­heiði, en víðast hvar er snjó­þekja eða hálka á vegum. 

Nánari upplýsingar um veður er að finna á heimasíðu Veðurstofunnar og færð vega á heimasíðu Vegagerðarinnar. Fólk er hvatt til þess að leita nýjustu upplýsinga áður en það hyggur á ferðalög.