Enn er gul og appel­sínu­gul við­vörun á bæði sunnan, norð­austan og austan­verðu landinu. Mikill vindur er víða og ó­fært vegna stór­hríðar. Björgunar­sveitir hafa sinnt tugum út­kalla vegna veðursins. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Jónasi Guð­munds­syni upp­lýsinga­full­trúa Lands­bjargar hafa ekki mörg út­köll borist í kvöld en björgunar­sveitir eru enn við störf við bæði Raufar­höfn og Þrengsli frá því fyrr í kvöld.

Jónas segir að engin al­var­leg slys hafi verið til­kynnt þó margt björgunar­sveitar­fólk hafi sinnt ýmsum út­köllum. 

„Þetta eru um 70 til 80 manns sem eru búin að vera í dag og er búið að ganga nokkuð vel,“ segir Jónas. 

Spurður um fjölda út­kalla segir hann erfitt að meta um­fang út frá því einu. „Ein sveit fer í út­kall og hjálpar fimm bílum á meðan önnur fer í út­kall og hjálpar einum. En þetta eru tugir at­vika eða verk­efna í dag,“ segir Jónas að lokum.

Víða lokað vegna veðurs

Enn eru Hellis­heiði og Þrengsli lokuð vegna veðurs, auk þess sem Mos­fells­heiði er lokuð. Búist er þó við því að veðrið batni á Suður­landi fyrir mið­nætti. 

Veðrið er tals­vert verra á bæði Austur- og Norð­austur­landi. Þar á ekki að lægja fyrr en klukkan tvö í nótt. Þar eru því víða enn lokanir. Ólafs­fjarðar­vegur, Víkur­skarð, Siglu­fjarðar­vegur, Hófa­skarð, Möðru­dals­ör­æfi, Fjarðar­heiði og Fagri­dalur eru allir lokaðir.

Nánari upplýsingar um veður er að finna á heimasíðu Veðurstofunnar og færð vega á heimasíðu Vegagerðarinnar. Fólk er hvatt til þess að leita nýjustu upplýsinga áður en það hyggur á ferðalög.