Yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi hefur fengið senda sektargerð frá lögreglustjóranum á Vesturlandi þar sem henni er boðið að ljúka málinu með sekt. Þetta herma heimildir fréttastofu RÚV. Sektin er lögð á yfirkjörstjórn fyrir að hafa látið óinnsigluð atkvæði liggja eftir að talningu lauk í Alþingiskosningunum 25. september.
Talningin var kærð til lögreglustjórans á Vesturlandi að kosningum loknum af Karli Gauta Hjaltasyni, oddvita Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi en hann var einn þeirra fimm frambjóðenda sem féllu af þingi eftir endurtalningu atkvæða í kjördæminu.
Eftir að rannsókn málsins lauk í síðustu viku var málið tekið til meðferðar hjá ákærusviði lögreglustjórans. Þá næst voru sektargerðir sendar út til allra meðlima yfirkjörstjórnar og þeim gefinn sá valkostur að ljúka málinu með sekt. Samkvæmt heimildum RÚV er helsti þáttur sektargerðarinnar sá að eftir fyrstu talningu hafi atkvæði legið óinnsigluð.
„Ég vil ekki staðfesta neitt slíkt, sé enga ástæðu til þess og hef ekkert um þetta að segja,“ segir Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar. Hann fékk hæstu sektargerðina, 250 þúsund krónur, samkvæmt heimildum RÚV. Aðrir fengu sektargerð upp á 150 þúsund krónur.
Fallist meðlimir yfirkjörstjórnar ekki á að greiða sektina er það í hlut lögreglustjórans að ákveða hvort ákæra verði gefin út og færi þá næst fyrir dómstóla.