Hugaríþróttin bridds verður valáfangi á næstu mánuðum í ýmsum skólum innanlands.
Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Bridgesambands Íslands, segir spilið í mikilli sókn.
Framhaldsskólinn á Suðurlandi hefur staðið fremst í því á umliðnum árum að sögn Matthíasar að standa fyrir kennslu í bridds sem nemendur hafa fengið metið til námseininga.
Aðrir skólar sem munu bjóða upp á valáfanga í spilinu í vetur eru Tækniskólinn, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi, Framhaldsskólinn á Laugum, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ.
„Þetta eru ótrúlega jákvæðar fréttir,“ segir Matthías en hann segir bridds oft líkt við skák hvað varði rökvísi og framsýni. Talning, líkindareikningur og sitthvað fleira komi við sögu.