Mosfellsbæ býðst nú til kaups félagið Orkuveita OB/01 ehf. sem ræður yfir borholu með heitu vatni í Mosfellsdal.

Eigendur jarðanna Selholt sog Selvangs eiga saman félagið Orkuveitu OB/01 ehf. um rekstur holunnar sem gerð var af Jarðborunum árið 1996 og er 460 metra djúp. Holan er sögð gefa tíu lítra á sekúndu af 80 til 83 stiga heitu vatni. Til samanburðar má nefna að vatnsmesti hver Evrópu, Deildartunguhver í Borgarfirði, gefur af sér um 180 sekúndulítra af 100 gráðu heitu vatni. Það er meðal annars notað til upphitunar húsa í Borgarnesi og á Akranesi.

Selholt og Selvangur eru, ásamt höfuðbólinu Seljabrekku, efstu bæir í Mosfellsdal. Í bréfi Hildar Sólveigar Pétursdóttur, lögmanns Orkuveitu OB/01, til Mosfellsbæjar segir að eigendur jarðanna tveggja séu annars vegar ellilífeyrisþegar og hins vegar ekki með fasta búsetu á staðnum. Þess vegna vilji þeir selja jarðhitaréttindin.

„Á undanförnum árum hefur verið nokkur eftirspurn eftir heitu vatni úr holunni, meðal annars frá eigendum Skeggjastaða, Hrafnhóla og Þverárkots og hafa þeir um nokkurt skeið óskað eftir viðræðum um aðgang að vatninu. Þrýstingur hefur nú aukist mjög á umbjóðendur mína að svara því hvort þeir geti selt aðgang að heitu vatni úr holunni og er því nauðsynlegt fyrir þau að taka ákvörðun um framtíð hennar,“ segir í erindi lögmannsins. Með því fylgir yfirlýsing eigenda nefndra þriggja jarða um vilja fyrir því að kaupa heitt vatn úr holunni.

Segir í bréfi lögmannsins að áform sumra jarðeigenda í Mosfellsdal um uppbyggingu atvinnurekstrar séu háð því að nægjanlegt heitt vatn sé í boði. Það standi nærri sveitarfélaginu að vera bakhjarl slíkrar uppbyggingar sem sé þegar hafin. Lagt er til að bæjarráð Mosfellsbæjar undirriti viljayfirlýsingu um að holan verði könnuð og að fengið verði mat á verðmæti jarðhitaréttindanna og á virði rekstursins. Markmiðið sé að Mosfellsbær kaupi síðan félagið með tilheyrandi nýtingarrétti.

„Hafi Mosfellsbær ekki vilja til framangreinds er þess óskað að bærinn hafi milligöngu við Orkuveitu Reykjavíkur, í samráði við umbjóðendur mína, um að Orkuveitan kaupi framangreint félag,“ segir í bréfi lögmanns Orkuveitu OB/01.

Erindið var á fimmtudag tekið fyrir í bæjarráði Mosfellsbæjar sem skipaði framkvæmdastjóra umhverfissviðs að gera umsögn um málið.