“Við vorum að hleypa upp varaafli á húsið og datt í hug að bjóða fólki að koma,” segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, en sveitin hefur opnað dyr sínar fyrir handboltaþyrstum Grindvíkingum og sýnir viðureign Íslands og Suður-Kóreu í handbolta á risaskjá í húsinu.
Rafmagnslaust er á öllum Suðurnesjum em grunur leikur á að bilun sé í yfirspennuvara á Fitjum fyrir Suðurnesjalínu 1. Landsnet kannar nú hvað olli biluninni.
Líkt og fyrr sagði etur íslenska karlalandsliðið nú kappi við lið Suður-Kóreu í síðasta leik liðsins í riðlakeppni HM í handbolta, og má því leiða að líkum að rafmagnsleysið hafi komið illa við ansi marga.
Björgunarsveitin Þorbjörn auglýsti boðið á Facebook síðu sinni fyrir stundu og segir Bogi að tæplega þrjátíu manns hafi mætt og horft á fyrri hálfleik. Þó sé alltaf að bætast í hópinn
“Við erum með sæti fyrir svona fimmtíu til sextíu manns. Við bjóðum upp á kaffi og fólk getur hlaðið símana sína og horft á leikinn,” segir Bogi.
“Við björgum öllu, það er bara þannig,” bætir hann við.