“Við vorum að hleypa upp vara­afli á húsið og datt í hug að bjóða fólki að koma,” segir Bogi Adolfs­son, for­maður björgunar­sveitarinnar Þor­bjarnar í Grinda­vík, en sveitin hefur opnað dyr sínar fyrir hand­bolta­þyrstum Grind­víkingum og sýnir viðureign Íslands og Suður-Kóreu í handbolta á risa­skjá í húsinu.

Raf­magns­laust er á öllum Suður­nesjum em grunur leikur á að bilun sé í yfir­spennu­vara á Fitjum fyrir Suður­ne­sja­línu 1. Lands­net kannar nú hvað olli biluninni.

Líkt og fyrr sagði etur ís­lenska karla­lands­liðið nú kappi við lið Suður-Kóreu í síðasta leik liðsins í riðla­keppni HM í hand­bolta, og má því leiða að líkum að raf­magns­leysið hafi komið illa við ansi marga.

Björgunar­sveitin Þor­björn aug­lýsti boðið á Face­book síðu sinni fyrir stundu og segir Bogi að tæp­lega þrjá­tíu manns hafi mætt og horft á fyrri hálfleik. Þó sé alltaf að bætast í hópinn
“Við erum með sæti fyrir svona fimm­tíu til sex­tíu manns. Við bjóðum upp á kaffi og fólk getur hlaðið símana sína og horft á leikinn,” segir Bogi.
“Við björgum öllu, það er bara þannig,” bætir hann við.