Öllum í­búum í Eng­landi verður boðið upp á frítt CO­VID-próf tvisvar í viku frá og með föstu­deginum en um er að ræða hr­að­greiningar­próf þar sem niður­stöður liggja fyrir eftir um það bil 30 mínútur. Prófin eru hluti af skimunar­á­ætlum yfir­valda og er þeim ætlað að koma í veg fyrir út­breiðslu veirunnar.

Í löndunum sem til­heyra Bret­landi, þar á meðal Eng­landi, hafa rúm­lega 4,37 milljón til­felli smits verið stað­fest og hafa rúm­lega 127 þúsund manns látist eftir að hafa greinst með CO­VID-19. Gripið var til hertra að­gerða þar í landi í upp­hafi árs vegna fjölda nýrra smita en síðastliðnar vikur hefur útbreiðsla veirunnar minnkað.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið stendur til að slaka á að­gerðum á næstunni en ríkis­stjórn Boris John­sons, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, mun koma saman í vikunni til að ræða til­slakanir sem til stendur að taki gildi 12. apríl næst­komandi, þar á meðal opnun veitinga­staða og verslanna.

Að sögn John­son er nauð­syn­legt að fjölga reglu­legum skimunum enn frekar til að tryggja að aðrar að­gerðir yfir­valda beri árangur, til að mynda bólusetningar. Heil­brigðis­ráð­herrann Matt Hancock sagði enn fremur að með prófunum væri hægt að ná til­fellum þar sem ein­staklingar væru án ein­kenna og því hægt að koma í veg fyrir frekari út­breiðslu.

Gagnrýna áætlunina

Ekki eru þó allir sáttir með á­ætlun yfir­valda um að bjóða öllum frítt próf þar sem margir telja slíkt vera peninga­eyðslu en Heilsu­gæsla Bret­lands, NHS, mun bera kostnaðinn. Ally­son Pollock, prófessor í lýð­heilsu­fræði við Há­skólann í New­cast­le, segir enn fremur að með því að prófa alla séu frekari líkur á að ein­hverjir fái falska já­kvæða niður­stöðu og þurfi því að fara í ein­angrun að til­efnis­lausu.

Hingað til hefur börnum í skóla og fjöl­skyldum þeirra verið boðið upp á slík próf, auk þeirra sem þurfa að yfir­gefa heimili sitt vegna vinnu, í lok mars voru um það bil milljón slík próf tekin dag­lega. Í öðrum löndum Bret­lands, Skot­landi, Norður-Ír­landi og Wa­les, er einnig boðið upp á hr­að­greiningar­próf reglu­lega.