Bandarísk yfirvöld hafa gengið á einstakling búsettan á Íslandi og boðið honum friðhelgi frá saksókn í skiptum fyrir að bera vitni gegn Julian Assange, talsmann og aðalritstjóra Wikileaks. Kristinn Hrafnsson, fyrrverandi talsmaður og núverandi ritstjóri Wikileaks, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

Upplýsingafulltrúi bandaríska sendiráðsins á Íslandi segist ekki geta tjáð sig um málið vegna lokunar bandarískra ríkisstofnanna vegna fjárlagadeilu í bandaríska þinginu. „Vegna skorts á fjármagni starfar samskiptaskrifstofa okkar með takmarkaða getu,“ segir upplýsingafulltrúinn.

Julian Assange hefur verið í ekvadorska sendiráðinu í Bretlandi frá árinu 2012 eftir að hann stakk af bresku lögregluna,stuttu eftir handtöku vegna gruns um kynferðisbrot í Svíþjóð. Sú rannsókn hefur síðan verið felld niður. Enn býr Assange þó í sendiráðinu, enda hafa bæði bandarísk og bresk yfirvöld gefið til kynna að til standi að handtaka Assange.

Ákæra gefin út á laun

Í dag var svo greint frá því að Assange hefur falið lögmönnum að leita til Sam-amerísku mannréttindanefndarinnar (e. Inter-American Commission of Human Rights (IACHR)), þar sem farið er fram á að ákæra, sem lögð var fram með leynd, sé gerð opinber. Í fréttatilkynningu Wikileaks um málið kemur fram að bandarísk yfirvöld hafa gengið á einstaklinga búsetta í Bandaríkjunum, Þýskalandi, og á Íslandi, og boðið þeim friðhelgi gegn saksókn í skiptum fyrir vitnisburð gegn Assange.

Kristinn Hrafnsson, sem er ritstjóri Wikileaks í fjarveru Assange, staðfestir í samtali við Fréttablaðið, að hann viti til þess að bandarísk yfirvöld hafi nálgast einstakling sem búsettan er á Íslandi og boðið viðkomandi að bera vitni gegn Assange. Kristinn segist þó ekki vera sá einstaklingur. „Ég get staðfest frá fyrstu hendi að þetta hefur verið gert. Það hefur enginn sett sig í samband við mig með þessum hætti. Ég er þó sjálfur til rannsóknar í þessu máli og ég veit til þess að gögn hafa verið sótt í einkafyrirtæki með leynd,“ segir Kristinn í samtali við Fréttablaðið.

Vill skuldirnar felldar niður í skiptum fyrir Assange

Aðspurður segist Kristinn ekki vita með hvaða hætti bandarísk yfirvöld hafa sett sig í samband við einstaklinginn. „Ég veit þó að í tveimur tilfellum hefur verið haft samband við lögmenn sem gætt hafa hagsmuni viðkomandi,“ segir Kristinn. „Þetta er til marks um þetta glórulausa stríð gegn Wikileaks af hálfu bandarískra yfirvalda. Það var gefin út ákæru á hendur Julian Assange með leynd svo það er engin vitneskja um hans mál,“ heldur Kristinn áfram og segir að vel mætti hugsa sér að sambærileg ákæra hefði verið gefin út á hendur honum og félögum hans, þó hann viti ekki til þess. „Þetta er til marks um að það eigi engu að eyra.“

Eins og áður segir hefur Julian Assange notið alþjóðlegar verndar ekvadorskra yfirvalda frá árinu 2012. Í desember 2017 hlaut hann jafnframt ekvadorskt ríkisfang. Í apríl 2017 greindi bandaríski fréttamiðillinn CNN að bandarísk yfirvöld væru að undirbúa ákæru á hendur Assange, sem Wikileaks greina nú frá að hafi verið gefin út á laun. Í júlí á síðasta ári greindi svo Lenín Moreno, sem þá var nýkjörinn forseti Ekvador, að Assange þyrfti að víkja úr sendiráðinu „á endanum“. Kristinn segir í samtali við Fréttablaðið að Moreno hafi boðist til þess að afhenda Assange bandarískum yfirvöldum gegn afskriftar eða afsláttar á skuldum ekvadorska ríkisins við Bandaríkin. „Þetta er skuggaleg staða,“ segir Kristinn.

Þá er jafnframt greint frá því í fréttatilkynningu Wikileaks að bandarísk yfirvöld hafa í forsetatíð Donalds Trump gengið hart fram gegn ekvadorskum yfirvöldum um að fá Assange framseldann, með sívaxandi hótunum. 

Fréttablaðið ræddi jafnframt við Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi alþingismann, sem var á sínum tíma í samskiptum við Julian Assange í kjölfar heimsóknar hans til Íslands 2010. Hún sagðist ekki vita til þess hver viðkomandi einstaklingur væri og sagði jafnframt að bandarísk yfirvöld hefðu ekki verið í neinum samskiptum við sig. „Ég hef ekki fengið neinar meldingar frá FBI,“ segir Birgitta í samtali við Fréttablaðið.