Eflaust eru margir nokkuð svekktir yfir því að Ísland hafi tapað möguleika sínum á því að sigra loksins Söngvakeppnina í ár. Fáir eru þó jafn spældir og Fannar Þór Einarsson, háskólanemi, sem hafði raunverulega trú á því að Daði og Gagnamagnið ættu sigurlagið í ár.
„Ég sá það fyrir mér að ef það væri enginn heimsfaraldur þá hefði Evrópa mögulega séð fyrsta sigur Íslendinga í Eurovision,“ segir Fannar í samtali við Fréttablaðið. Vegna heimsfaraldurs hafi landsmenn þó misst af því tækifæri. „Þessi missir er sérstaklega mikill þar sem Íslendingar eru stærstu aðdáendur keppninnar miðað við höfðatölu.“

Nýjar forsíður í vikunni
Fannar brá því til þess ráðs að leiða fylgjendur sína í gegnum tímalínu þar sem engin veira hefði dreift sér um heiminn og Fréttablöð vikunnar hefðu verið með öðru sniði.
Á forsíðu þriðjudagsblaðsins hefði að sjálfsögðu verið mynd af Daða á stóra sviðinu með bikarinn í hönd, þar sem það er fyrsta blaðið sem kemur út eftir helgina. „Á föstudaginn myndu svo Íslendingar koma saman á Arnarhóli og syngja nýja þjóðsönginn okkar.“
„Ég vildi fá að sjá þau keyra Gagnavagninum að sviðinu hjá Arnarhóli og sjá Daða halda á bikarnum.“ Fannar tók það því upp á eigin arma að skapa þá mynd.

Engin tveggja metra regla
„Ég minntist þess þegar landslið karla í handbolta kom heim með silfrið af ólympíuleikunum og þegar Ísland keppti á EM um sumarið, hversu mikil félagsleg samheldni var í allri þjóðinni.“ Öll þjóðin hafi sameinaðist í þjóðarstolti.
„Mér fannst þetta vera svo fallegar stundir og ég bíð enn eftir að sjá slíkt gerast hér heima í tengslum við keppnina.“ Einmitt þess vegna hafi verið mikilvægt að setja mynd af þjóðinni samankomni á Arnarhóli til að fagna glimrandi gengi Daða í keppninni. „Ég vildi líka sérstaklega hafa þessa mynd af þjóðinni þar sem allir standa þétt saman með minna en tveggja metra millibili, vegna þess að það hefði mátt í þessari tímalínu.“
Langaði í annan veruleika
Fannar hefur verið dyggur aðdáandi keppninnar síðan árið 2006 þegar Silvía Nótt gerði garðinn frægan með gjörningi sínum.
„Þetta er samt í fyrsta skiptið sem ég hef haft raunverulega trú á því að Ísland ætti möguleika á að sigra keppnina. Og því miður, vegna ástandsins í heiminum, munum við aldrei komast að því hvað hefði orðið.“ Það sé þó gaman að láta sér dreyma. „Mig langaði að sjá annan veruleika en þann sem átti sér stað svo ég bjó hann bara til.“
