Fjórtán ára drengur, Jackson Oswalt, gæti hafa orðið yngstur til að framkalla kjarnahvörf. Það á hann að hafa gert aðeins 12 ára gamall, í janúar 2018, mestmegnis með tækjum af Ebay. The Guardian greinir frá þessu.

Áhugamannahópur sem nefnist The Open Source Fusor Reaserch Consortium, hefur viðurkennt afrekið. Drengurinn segist hafa breytt leikherberginu sínu í kjarnorkutilraunastofu, með tækjum fyrir samtals um 1,2 milljónir króna. Tækin noti 50 þúsund volt af raforku til að hita tvívetni til að skapa kjarnahvörf og losa þannig orku.

Hann segist hafa byrjað að fikta við þetta þegar hann byrjaði að glöggva sig á því hvað aðrir hefðu áorkað með samrunaofnum. Í kjölfarið hafi hann byrjað að panta sér dót. „Ég fékk þetta mest af eBay en margt af því sem ég keypti þar nýttist mér ekki sem skyldi. Ég byrjaði því að eiga við þessa hluti og breyta þeim,“ skrifaði hann á Fusor.net.

Faðir drengsins, Chris Oswalt, segir við USA Today að fólk neiti að trúa því sem sonur hans hafi áorkað – þar til þeir sjá það með eigin augum.

Fram kemur í grein Guardian að vísindamenn muni vera afar skeptískir á verk drengsins, þar til niðurstöðurnar verði birtar í vísindariti eða staðfestar af þar til gerðum stofnunum.