„Bjartsýnustu menn segja að árið 2023 verði nálægt eðlilegu árferði í ferðabransanum, en þeir sem eru ekki eins bjartsýnir segja 2024,“ segir Kristófer Oliversson, formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.

Kristófer segir nýtingu á hótelherbergjum í Reykjavík fara úr nánast engu upp í það sem þekktist fyrir heimsfaraldur.

„Sumarið lítur bara ljómandi vel út og þetta er í samræmi við okkar björtustu vonir. En við höfum þó áhyggjur af vetrinum. Okkar markaðssvæði eru nýrisin upp úr Covid-19, það er stríðsrekstur og viðskiptaþvinganir í gangi sem hafa áhrif til hækkunar á eldsneytisverði og kyndikostnaði og það er mikil verðbólga. Því eru ansi margir óvissuþættir sem spila inn í,“ segir hann.

Þá segir Kristófer að landsmenn séu að taka vel við sér eftir faraldurinn.

„Ég get fullyrt það, án þess að það liggi vísindaleg rannsókn að baki, að Íslendingar eru að nýta sér gistingu innanlands í meiri mæli en áður. Miklu meiri heldur en fyrir Covid,“ segir hann. ■