Þrátt fyrir hallarekstur upp á 14,4 milljónir Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi, gera stjórnendur flugfélagsins PLAY ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu á síðari hluta þessa árs.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, segir niðurstöðuna í takti við væntingar stjórnenda þótt vissulega sé hún verri en vonir stóðu til þegar félagið var stofnað.

„Við sáum auðvitað ekki fyrir þessa þróun eldsneytisverðs sem dæmi. En í stóru myndinni þá má segja að þetta uppgjör sé ákveðinn endapunktur á uppbyggingarfasa félagsins. Við vorum að klára fjárfestingar, auk þess sem við höfum verið að fjölga vélum og áfangastöðum.

Tekjurnar eru að aukast jafnt og þétt og við gerum ráð fyrir að velta um 20 milljörðum íslenskra króna eða 150 til 160 milljónum dala á árinu öllu. Það yrði gríðarlegur áfangi,“ segir Birgir

Hann segir fjölgun farþega gefa góð fyrirheit fyrir það sem koma skal.

„Júlímánuður segir okkur að viðskiptamódelið gengur upp. Þá vorum við loks komin með allar okkar 6 vélar í fulla nýtingu og allt á réttri leið hvað tekjurnar varðar.

Við flugum til að mynda með 110 þúsund farþega í júlí, samanborið við 80 þúsund farþega í júní og rúmlega 50 þúsund í maí.“

Birgir segir spár félagsins gera ráð fyrir að heildarfjöldi farþega verði um 800 þúsund áður en árið er á enda.

„Við munum bæta við okkur fjórum flugvélum í vetur og verðum þá með tíu vélar á næsta ári. Við áformum að velta um 300 milljónum dollara á næsta ári sem mun gera okkur að einu stærsta fyrirtæki á Íslandi. Það eru auðvitað heilmikil tíðindi. Ekki bara fyrir okkur eða okkar fjárfesta, heldur fyrir íslenskt atvinnulíf í heild sinni,“ segir Birgir Jónsson.