Dr. Martin Ingi Sigurðsson prófessor í svæfinga- og gjörgæslulækningum, segir það „gleðilegt að við séum farin að sjá til sólar í baráttunni við COVID-19“ en segir mikilvægt að við sýnum þolinmæði næstu daga.
„Eins og sjá má glöggt af fjölmiðlaumræðu helgarinnar, sem snýr nú aðallega að því hvernig við getum aflétt þeim höftum sem hafa reynst nauðsynleg til að ráða við álag vegna veirunnar. Jafnvel þótt nokkurrar óþolinmæði sé farið að gæta, hefur styrkur viðbragðsins við COVID-19 verið sá að við höfum látið vísindi ráða för, og því miður felst það stundum í sér að bíða þarf eftir gögnum eða greiningu þeirra,“ skrifar Martin í færslu á Facebook síðu sinni.
Hann bendir COVID-19 rannsóknarhópur Landspítala hefur reynt að skýra hver áhrif bólusetninga og omicron-afbrigðisins hafa verið á þróun innlagna á sjúkrahúsið, Hrósar Martin þar Elías Eyþórssyni sérstaklega fyrir þekkingu og hæfileika í úrvinnslu flókinna gagna.
Innlagningarhlutfallið 0.1-0.4% hjá 30- 74 ára
Martin segir að hægt sé að læra þrjá hluti af niðurstöðum rannsóknarhópsins. Mikilvægi bólusetninga skiptir það mestu máli.
„Bólusetningar skipta sköpum. Hjálögð er mynd af innlagnarhlutfalli miðað við aldur og bólusetningarstöðu. Við sjáum skarpa breytingu frá 45 ára aldri, þar sem hlutfall innlagðra er miklu lægra hjá bólusettum, sérstaklega þeim sem hafa þegið örvunarskammt. Áhætta 85 ára einstaklings sem hefur þegið örvunarskammt er sú sama og 57 ára óbólusetts einstaklings. Ég hvet alla til að þiggja bólusetningu, og bólusetta til að þiggja örvunarskammt,“ skrifar Martin.
Hann bendir einnig á að faraldurinn sé allt annar eftir að Ómíkron-afbrigðið var allsráðandi.
„Við höfum ekki enn upplýsingar um afbrigði meðal smitaðra, svo við höfum borið saman innlagnarhlutfall fyrir og eftir 15 desember, þegar omicron-afbrigðið er örugglega orðið afgerandi. Hér má sjá að það er mikill munur á innlagnarhlutfalli þeirra sem greinast fyrir eða eftir þann tíma hjá öllum aldurshópum, bæði meðal bólusettra og óbólusettra. Hjá sjúklingum milli 30-74 ára leggjast um 0.1-0.4% inn.“
„Staðan á gjörgæslu er mjög breytt miðað við upphaf faraldursins. Þetta er tilkomið bæði vegna bólusetningarstöðu þjóðfélagsins og markvissari og betri meðferðar á göngudeild og legudeildum, sem og tilkomu omicron-afbrigðisins. Hlutfall þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús sem þarfnast gjörgæsluinnlagnar hefur lækkað verulega með hverri bylgju faraldursins. Enginn sjúklingur sem hefur þegið örvunarskammt hefur þurft að leggjast inn á gjörgæslu í faraldrinum,“ skrifar Martin.
„Það er með þessi gögn að vopni sem ég leyfi mér að vera bjartsýnn á að það fari að vora til eftir þennan langa COVID-19 vetur, og við sjáum tilslakanir og betri stöðu í kortunum.“
„Seinni hálfleikurinn virðist stundum margfalt lengri“
Martin segir baráttuna við veiruna þó ekki alveg lokið og er seinni hálfleikurinn eftir.
„Eins og í handboltanum þýðir góð hálfleiksstaða þó ekki að leikurinn sé unninn, og seinni hálfleikurinn virðist stundum margfalt lengri en sá fyrri. Þetta er ekki búið enn. Heilbrigðiskerfið þarf að aðlagast því að sinna verkefnum sínum samhliða því að allnokkurt hlutfall þeirra sem þarfnast heilbrigðisþjónustu verður smitaður af veirunni enn um sinn,“ skrifar Martin og segir að það mun einnig stór hluti starfsmanna spítalans veikjast af veirunni.
Stærsta að mati Martins er að læra af faraldrinum til langs tíma og styrkja viðbragðsgetu Landspítalans.