Fram­halds­skóla­nem­endur virðast nokkuð bjart­sýnir á komandi skóla­ár, þrátt fyrir sam­komu­tak­markanir, og segja að það þurfi mikinn sjálf­saga til að standa sig í náminu. Sam­nem­endur hafa fallið í á­föngum og aðrir hætt í skólanum.

Frétta­blaðið tók við­tal við nem­endur í Fjöl­brauta­skólanum við Ár­múla og Mennta­skólanum við Hamra­hlíð þar sem skólinn virtist vera kominn á fullt.

Námið gengið vel þrátt fyrir allt

Hildur Ýrr Schram 22 ára og á sinni síðustu önn í fram­halds­­skóla. Hún segir þetta sé búið að taka mikið á, þar sem þetta hefur krafist mikils aga og kennarar séu ekki nem­endum innan handar á sama hátt í verk­efnum og þess háttar. „Það hefur þó gengið vel og gott fyrir mig þar sem ég næ að halda mér á teppinu,“ segir hún.

Hildur Ýrr segir á­standið taka á.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ég hef alveg heyrt að krakkar séu að falla og detta úr skóla, og nennt þessu ekki þar sem þau ná ekki að halda sér við efnið, þetta er mikill sjálfsagi,“ og þetta sé búið að vera svona síðustu tvö ár og orðin svolítill vani. Hún hafi ekki miklar áhyggjur af komandi önn. „Þegar maður fær póstinn um að vera heima, þá fer maður bara í sömu rútínu,“ segir Hildur.

Síðustu annarri skrítnar

Tryggvi Klemens Tryggva­son 18 ára nemandi á fjórða ári við Fjöl­brauta­skólann í Ár­múla. Hann segir síðustu annir hafi verið skrítnar og öðru­vísi. Sam­nem­endur haldi sínu lífi gangandi.

Tryggvi segir sam­nem­endur sína lykil­at­riði.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ég var búinn að slugsa í skólanum fyrir Co­vid, en ég námi að koma mér á strik og ein­beita mér betur með því að læra heima,“ segir hann. „Það er ekki mjög mikið fé­lags­líf í þessum skóla, en ég er í góðu sam­bandi við vini mína í öðrum skólum,“ segir Tryggvi.

„Svo það þarf að skipta hópnum upp fyrir böll og skrá sig á við­burðina,“ bætir hann við og segist vera nokkuð á­hyggju­fullur fyrir önninni vegna þess mikla fjölda smita sem er í sam­fé­laginu.

Kvíða heima­kennslu

Þrjár stúlkur á fyrsta ári í Mennta­skólanum við Hamra­hlíð segjast kvíða náminu ef heima­kennslu yrði komið á.

Að­spurð um það hvernig skóla­starfið sé öðru­vísi segir Salka Kristins­dóttir að helsta breytingin sé grímu­skyldan og minna fé­lags­líf. „ Við fáum ekki að hittast á sama hátt sem er alveg leiðin­legt,“ segir hún. „Það er alltaf smá erfiðara að mæta og læra, eins að biðja kennarana um að­stoð,“ segir Salka.

Fé­lags­lífið verður með öðru sniði í haust en þó eru ein­hverjar líkur á að minni við­burðir verði haldnir, sem og böll með til­liti til sam­komu­tak­markana. „Ég held það séu um 260 ný­nemar, svo það þarf að skipta hópnum upp fyrir böll og skrá sig á við­burðina,“ segir Sara Gunn­laugs­dóttir.