Stefnt er að því að bólusetja 24 þúsund manns gegn Covid-19 í vikunni. Notaðar verða allar fjórar tegundir bóluefna sem í boði eru hér á landi. Um tólf þúsund manns fá bóluefni frá Pfizer og skiptast skammtarnir jafnt í fyrri og seinni bólusetningu. 1.500 einstaklingar fá bóluefni frá AstraZeneca og um sjö þúsund frá Moderna. Þá fá fjögur þúsund manns bóluefni frá Jansen, einungis eina sprautu þarf af því efni til að ná fullri bólusetningu.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir bólusetningar hafa gengið vel. Í Laugardalshöll verði gefnir um 16 þúsund skammtar í vikunni. „Þannig að þetta er alveg ágætis vika,“ segir hún.

Hraðar hefur gengið að bólusetja karla en konur, til að mynda er nú þegar búið að bólusetja alla karlmenn sem tilheyra forgangshópi sjö. Það eru karlmenn með undirliggjandi sjúkdóma og áhættuþætti vegna Covid-19.

Ragnheiður segir ástæðuna vera þá að bóluefni AstraZeneca sé ekki gefið konum yngri en 55 ára. Þá hafi þær konur sem þegar hafi fengið fyrri sprautuna af efninu verið boðin seinni sprauta með bóluefni frá Pfizer, það hægi einnig á bólusetningum hjá öðrum konum sem annars hefðu fengið Pfizer. „Endurbólusetningar taka svolítið stóran toll, það er yfirleitt helmingurinn af bólusetningunum sem við erum að vinna með,“ segir hún.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Aðspurð segir Ragnheiður að borið hafi á því að konur sem fengið hafi eina sprautu af AstraZeneca séu kvíðnar því að fá seinni sprautu með öðru bóluefni. Hún segir það þó gert víðar en á Íslandi. Þá hefur það einnig komið upp að konur sem fengið hafa fyrri sprautuna af Astra–Zeneca hafi neitað þeirri seinni. Spurð að því hvort að nægileg vörn náist með einni sprautu segir Ragnheiður mikla vörn felast í einni sprautu en að ástæða sé þó fyrir að sprauturnar séu tvær.

„Í einni sprautu er líklega jafn mikil vörn og þegar við erum að vinna með flensubólusetningar þannig að við erum að teygja okkur langt í vörninni með því að gefa tvo skammta og það er bara frábært,“ segir Ragnheiður.

Stefnt er að því að nú í síðari hluta maí verði um helmingur þjóðarinnar búinn að fá fyrri skammt bólusetningar. Þá er áætlað að fjöldatakmarkanir fari úr 50 manns í 100-1.000 manns og að fjarlægðatakmarkanir verði einn meter.

Áætlað er að í síðari hluta júní hafi 75 prósent þjóðarinnar fengið einn skammt af bóluefni og þá er stefnt að því að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt. Ragnheiður segist bjartsýn á að þessar áætlanir gangi eftir.

„Ef allt gengur eins vel og hefur gengið þá er ég bjartsýn á að við fáum frekar eðlilegt sumar,“ segir Ragnheiður. „Við erum að vona að við náum að keyra þetta svolítið núna fyrir sumarið líka svo að okkar fólk komist í sumarfrí, það eru allir orðnir langþreyttir eftir veturinn.“